föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hóstinn byrjaði fyrir 5-6 vikum í Þjóðólfshaga -

9. maí 2010 kl. 17:07

Hóstinn byrjaði fyrir 5-6 vikum í Þjóðólfshaga -

Sigurður Sigurðarson bóndi í Þjóðólfshaga er jafnan með mörg hross á húsi og þar er jafnan mikið um að vera. Eiðfaxi sló á þráðinn til Sigga til að forvitnast um stöðu hestahóstans sem hefur bolað sér niður út um allt.

Eiðfaxi: Siggi, hvernig byrjaði hóstinn í þínu hesthúsi?

Siggi Sig: Ég varð fyrst var við hósta fyrir 5-6 vikum síðan. Þá kom til mín hryssa sem byrjaði að hósta fljótlega eftir að hún kom. Við vissum ekki alveg hvað þetta var, því þá hafði maður ekki heyrt að neinn smitsjúkdómur væri í gangi. Það hvarflaði meira að segja að mér að hún væri að sýna einhver viðbrögð við kraftfóðri, svo ég tók það af henni. En það breytti auðvitað engu. Það endaði með því að hún fór á pensillínkúr því hún varð mjög slæm af hóstanum. Það gæti hafa hjálpað henni.

Eiðfaxi: Síðan hafa fleiri hross farið að sýna einkenni?

Siggi Sig: Já. Í byrjun fannst mér þetta ekki vera neitt alvarlegt en svo fóru fleiri hross að hósta og þá fór maður að heyra að þetta væri í fleiri húsum og greinilega bráðsmitandi. Mín reynsla er sú að þetta byrjar rólega, tekur um það bil 10 daga að ná hámarki í hrossunum eftir að þau sýna einkenni.
Hryssan sem ég talaði um áðan hóstaði í um það bil 3 vikur. Á þeim tíma hafði ég hana mest inni og lét fara vel um hana, því það var kalt í veðri. Þegar hún var orðin einkennalaus gaf ég henni alveg frí í tæpar tvær vikur í viðbót. Síðan er ég búinn að fara 4-5 sinnum á hana, byrjaði rólega og hún virðist vera í lagi. Hún er orkumikil, ekki móð og virkar bara mjög spræk. Ég vona að hún sé búin að jafna sig.

Eiðfaxi: Hafa hrossin fengið hita líka?

Siggi Sig: Ég hef ekki fundið hita í neinu hrossi ennþá. Þegar þetta er komið í húsið hjá manni held ég að það sé skynsamlegt að fara mjög varlega í þjálfun á þeim hrossum sem er ekki eru farin að sýna einkenni. Nánast öll hross virðast fá einhver einkenni, þetta er lúmskt, byrjar mjög vægt. Þau hross sem maður reið þar til bera fór á einkennum eru líklega að fara verr út úr þessu. Það var hestur sem ég fór með í sýningu á Ingólfshvol. Hann var ólíkur sjálfum sér. Um kvöldið byrjar hann að hósta og er búinn að vera mjög slæmur, liggur mikið og er slappur. Svo það borgar sig að fara varlega, leyfa hrossunum að njóta vafans og gefa þeim frekar lengra frí en styttra. Það er líf eftir landsmót!

Eiðfaxi: Hvað með framhaldið?

Siggi Sig: Við erum búin að hvíla nánast öll hross í tæpar tvær vikur og ætlum að hvíla alla næstu viku líka. Síðan reynum við að hafa hrossin úti ef það er hlýtt, því við höldum að hlýtt og ferskt loft geri þeim gott. Ef þetta er hóstinn sem hross fá oft þegar þau eru flutt erlendis, þá held ég að þetta þynnist ekkert endilega út með vorinu. Við vitum að hross sem eru flutt út á sumrin fá alveg eins hósta og þau sem fara út að vetri eða hausti. En það er svo sem ekki vitað ennþá hvaða veirusýking þetta er. Við verðum allavega reynslunni ríkari eftir þetta.

Eiðfaxi: Hvað með kynbótasýningar og mótahald?

Siggi Sig: Þó þessi hósti hafi breiðst mjög hratt út síðustu vikurnar, eiga mörg hross enn eftir að veikjast. Það mun verða á mjög slæmum tíma, þó enginn tími sé góður fyrir veikindi. Svo það er ljóst að þetta á eftir að hafa mikil áhrif á sýninga- og mótahald.
En það verður bara að koma í ljós hvernig þetta þróast og það er betra að fara varlega og vel með hrossin, heldur en að þeim slái niður og veikist aftur. Maður ætti að vera fljótur að ná þeim sem voru í góðri þjálfun í gang aftur þegar þau eru orðin fullfrísk, svo það reynir bara á þolinmæðina og almenna skynsemi hjá okkur hestamönnum núna.

Við látum þetta vera lokaorðin og þökkum Sigga fyrir spjallið, um leið og við óskum hrossunum í Þjóðólfshaga góðs bata.