laugardagur, 17. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hóstapestin svæsin - Mette Mannseth -

3. maí 2010 kl. 16:35

Hóstapestin svæsin - Mette Mannseth -

Hóstapestin sem gengur nú hrossa á milli er að margra mati svæsnari er í fyrstu var talið. Sums staðar hefur pestin verið í hátt í tvo mánuði húslæg og sum hrossin ennþá veik.

Menn hljóta líka að spyrja sig hver eftirköst svona sýkingar geti orðið og hvernig haga beri þjálfun hrossa sem eru að ná sér.

Einnig spilar siðfræðin hér stóra rullu. Eiga menn að valsa um allt og bera smit á milli? Menn eiga auðvitað ekki að mæta með dauf og/eða slöpp hross í keppni eða sýningar. Svo einfaldast í þessu öllu er að hafa heilsu hestanna og dýraverndarsjónarmið að leiðarljósi og fara að öllu með gát.

Mette Mannseth, reiðkennari á Hólum og hrossabóndi að Þúfum, segir að hóstapestin hafi óneitanlega sett strik í reikninginn.


Hvernig lítur þetta út hjá þér?

Hjá okkur er eiginlega allt í húsinu hóstandi. Hestarnir eru kannski ekki mjög veikir, en það er auðvitað ekki hægt að ríða þeim og þetta ástand hefur verið viðvarandi í mánuð, síðan í byrjun apríl. Af 40 hesta hópi hafa um 5-6 hross fengið hita, annars eru einkennin ekki mjög skýr og maður sér best eftir á hvernig best hefði verið að snúa sér í þessu.

Nú hef ég heyrt í mörgum tamningamönnum víða um land og þetta byrjar eins alls staðar eins. Einkennin eru þannig að þau verða slöpp, móð, flenna út nasir, eru daufari - fara svo að hósta eftir á. 1-2 hestar hósta, síðan fer að fjölga hóstandi hrossum í húsinu og svo þegar 1/3 hrossanna eru orðin veik, þá verður allt í einu allt veikt.

Hrossin hjá okkur eru að jafna sig en ég lenti í því að vera byrjuð aftur á hestum sem voru veikir en um viku seinna snarversnaði þeim og sumir fengu mikinn hita. Það er því gríðarlega mikilvægt að fara mjög varlega af stað aftur og ég legg áherslu á það. Við reynum að láta fara vel um hrossin sem eru lasin, mælum hita, höfum ábreiður á þeim sem mikið eru gengin úr og pössum að þau fái ferskt loft og séu þurr.

Þegar við byrjum svo á þeim aftur munum við labba með þau, bara fet og stutt í einu. Svo förum við að ríða þeim, bara á feti í nokkurn tíma. Það þarf að fylgjast vel með mæði hjá hrossunum, því þau eru mun úthaldsminni og þola ekkert að taka á eftir svona "sjúkralegu".

Það er vissulega erfitt að sitja á sér og láta hestana bara standa. En ég lít þannig á það að heilsa dýranna hafi algjöran forgang, þó maður komist ekki á sýningar eða í keppni næstu mánuðina. Ég tek enga óþarfa áhættu með hrossin, enda er hætta á að þau fái króníska öndunarfærasjúkdóma ef ekki verður varlega farið og það er náttúrulega alveg ferlegt.

Hvað finnst þér um að fólk sé að "ná sér í smit"?

Ég vil eindregið vara fólk við að ná sé í þetta smit því þetta tekur of mikið á hrossin í langan tíma. Dýralæknar segja líka að líklega verði auðveldara fyrir hross að eiga við þetta úti í haga þar sem þau hafa meira ferskt loft.

Hvaða áhrif hefur þetta haft á kennsluna á Hólum?
Við höfum þurft að hætta við lokapróf á 1.ári og hætta kennslu á nemendahestum. Í reiðkennaradeildinni höfum við reynt að flýta og seinka prófum og sama má segja um verknámið. Þetta er í svolitlu uppnámi sem stendur og við verðum að breyta skipulaginu allnokkuð, það er ljóst.


Við þökkum Mette fyrir spjallið og hennar reynslusögur og varnarorð og vonum að þessi hóstapest fari að ganga yfir og fari mildum höndum um þau hross sem eru veik.