þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Horses of Iceland á EQUITANA 2017

7. febrúar 2017 kl. 10:10

Horses of Iceland

Markaðsverkefnið Horses of Iceland með bás á Equitana

Einn af stærstu viðburðunum sem markaðsverkefnið Horses of Iceland tekur þátt í á árinu 2017 er Equitana sýningin sem verður haldin í Essen í Þýskalandi frá 18. – 26. mars nk. Horses of Iceland verður með bás á sýningunni og kynnir þar íslenska hestinn fyrir alþjóða hestasamfélaginu, en sýninguna sækja um 200.000 manns, flestir frá Þýskalandi. Þýski markaðurinn er jafnframt stærsti markaður fyrir íslenska hestinn og hestavörur, og stærsta Íslandshestasamfélagið utan Íslands er þar.

Markmið verkefnisins með þátttöku í sýningunni er að miðla og fræða, auka vitund um og áhuga á íslenska hestinum og auka eftirspurn eftir hestinum og vörum og þjónustu honum tengdum. Á básnum verður m.a. boðið upp á að skoða hestinn í 360° myndböndum með sýndarveruleikagleraugum, boðið upp á fræðslu um reiðmennsku og sérstöðu íslenska hestsins, skemmtilegar uppákomur og samtal við knapa og aðra sérfræðinga. Samstarfsaðilar í Horses of Iceland verkefninu verða kynntir á básnum en nú eru 47 fyrirtæki, félög og samtök aðilar að verkefninu sem Íslandsstofa stýrir. Auk þátttöku Horses of Iceland, tekur fjöldi íslenskra fyrirtækja sem tengjast íslenska hestinum þátt í Equitana með eigin bás auk þess sem Íslandshestasamtökin í Þýskalandi verða á sýningunni einnig.

Við bjóðum öllum áhugasömum aðilum að koma og heimsækja okkur á sýningunni, bás nr. 2-B19. Hvetjum við okkar samstarfsaðila og alla Íslendinga til að kynna erlendum samstarfsaðilum þátttöku Horses of Iceland á sýningunni. Horses of Iceland býður gestum sínum frímiða inn á sýninguna. Hægt er að skrá sig á þessari slóð https://www.equitana.com/international_desk_3595.html. Smella á „Register now“ og skrá inn „Horses of Iceland“ í dálkinn „Who invited you“.