sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Horfum til framtíðar!-

12. desember 2011 kl. 12:10

Horfum til framtíðar!-

Eiðfaxi var á ferðinni á Norðurlandi laugardaginn 10. desember og hitti Baldvin Kr. Baldvinsson hrossabónda í Torfunesi...

Baldvin var á Hólum í Hjaltadal þeirra erinda að sækja þrjú tryppi sem höfðu verið í tamningu og þjálfun þar á bæ.
Eiðfaxi tók Baldvin tali:


Hefurðu oft sent hross hingað til tamningar og þjálfunar?
Já nokkrum sinnum, ég hef alltaf af og til sett tryppi hingað.

Ertu ánægður með útkomuna?
Mjög svo, það sem ég sækist eftir hér er fagmennska, unnin undir handleiðslu fagaðila og svo veit maður að hrossin eru stunduð. Metnaður nemenda er líka mikill. Ég sá hér í dag að öll hrossin eru vel unnin, af natni og fagmennsku. Maður sá ekkert hross í mótsögn.

Eru Þingeyingar farnir að hlakka til Landsmóts í Reykjavík?
Já alla vega ég og ég vona að svo sé með fleiri.

Hvers væntirðu?
Ég vona að ég komi sem flestum kynbótahrossum inn á mótið. Þarna í Reykjavík er maður með hrossin við vellina og öll á húsi. Þarna er frábær aðstaða á allan hátt.

Hvaða skoðun hefurðu á karpinu um Landsmótsstaði framtíðar?
Við erum komin á nýja öld. Við getum ekki haldið sömu mótin aftur og aftur. Ég held að of mikið sé horft til fortíðar. Fyrir okkur hrossabændurna, liggur mikil vinna að baki með hrossin. Þegar við komum svo með þau á Landsmót er ekki gott að þurfa að vera að flytja hrossin fram og til baka allt mótið á kerrum. Það gengur frá þessum ungu hrossum mörgum hverjum.
Við þurfum að byggja upp landsmóts staði sem nýtast allt árið. Það er alltaf verið að slást um þessi mót og svo sitja byggðarlögin og hestamannafélögin á þeim stöðum sem fá þau, uppi með skaðann. Það þarf ekki annað en að skoða þessa staði sem mótin hafa verið haldin á, þá sér maður hvernig notkun þeirra á milli móta er háttað. Mín skoðun er að við verðum að festa tvo staði  undir Landsmótin, einn norðanlands og annan á Suðurlandi.

Hvaða staði myndirðu vilja sjá byggða upp í þessum tilgangi?
Sé framtíð Hólaskóla trygg, á að byggja þar upp frábæra aðstöðu. Aðstaðan nýtist svo skólanum milli móta. Þarna á jafnvel að yfirbyggja vellina.
Svo eigum við að hýsa LM á Suðurlandi í Reykjavík, þar er fólkið.