sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Höndin sem heldur um tauminn

19. mars 2011 kl. 19:26

Listamaðurinn Bernd Vith á Röd frá Ellenbach. Íslenskar stangir og enskur múll. Taumhöndin mild. Hesturinn frjáls í jafnvægi.

Fingurinn sem heldur um gikkinn

JENS EINARSSON/ SKOÐUN:

„Engin beislabúnaður er harðari en höndin sem heldur í tauminn.“ Þetta er uppáhaldsfrasi margra reiðmanna um þessar mundir. Sem verja af alefli harðan beislabúnað, eins og stangir og krossmúl. Það má líkja þessu við mann sem beinir skotvopni að öðrum manni en segir um leið: Það er ekkert að óttast. Þessi byssa er ekki hættulegri en fingurinn sem heldur um gikkinn!

Strangt til tekið hefur hann rétt fyrir sér. En það nægir ekki til að sefa ótta þess sem stendur fyrir framan hlaupið. Hann er í sama hlutverki og hestur, sem er riðið við harðasta beislabúnað — og gefur eftir tauminn þótt hann sé ekki sáttur við stöðuna.
Ef menn er svo snjallir reiðmenn og góðir þjálfarar að þeir þurfa ekki að taka í tauminn, af hverju ríða þeir þá bara ekki við hálsband eða snúrumúl? Ekki eru stangir og krossmúll svo fagur búnaður að það geti verið ástæðan fyrir notkun hans.

Góður reiðmaður upplifir sannkallaða nautn þegar óskemmdur hestur svarar stöngum vel. Ekki vegna þess að keðjan og krossmúllinn séu í fullu starfi, heldur vegna þess að íslenskar stangir, án múls, geta hjálpað hestinum og reiðmanninum að finna í sameiningu höfuðburð og reisingu þar sem hestinum líður vel. Er í jafnvægi. Þá þarf knapinn ekki að koma við tauminn og getur látið hestinn í friði. Óþvingaður er hesturinn fegurstur.

Léttleiki er slagorð í nútíma hestamennsku. Það var líka slagorð áður fyrr. Það getum við lesið um í Horfnum góðhestum. En fáir höndla þennan léttleika. Nú sem áður fyrr. Til þess þarf kunnátu og næmi. Og sanngirni og þolinmæði, sem er þrautin þyngri.

Á myndinn er listamaðurinn Bernd Vith á Röd frá Ellenbach. Íslenskar stangir og enskur múll. Taumhöndin mild. Hesturinn frjáls í jafnvægi.