mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Holdafar hrossa

6. janúar 2014 kl. 13:00

Hér sést hvernig taka á á síðu hrossa við mat á holdafari.

Mikilvægt að geta metið holdafar hrossa

Hver sá sem fóðrar hross þarf að bera skynbragð á heilbrigt útlit þess og geta metið hvað eru hæfileg hold. Við matið þarf að taka tillit til árstíma og í hvaða hlutverki hrossið er, t.d. hvort um er að ræða reiðhest, tryppi í vexti, fylfulla eða mjólkandi hryssu. 

Til að meta holdafar má skoða nokkra þætti

1. Magn og festu fitu á síðu. Fitumagn á öftustu rifbeinunum sýnir vel holdafar hestsins. Þegar hross eru í bata þá er fitan laus átöku en fastari þegar þau eru í aflögn.

2. Vöðvafyllingu. Hross sem lenda í fóðurskorti fara smám saman að ganga á eigin vöðva. Það kemur fram á baki, lend, hálsi, makka og víðar. 

3. Kviðlag. Kviðlag hrossa er misjafnt eftir náttúrunnar hendi. Auk eðlislægs munar eru flest hross kviðaðari á haustin og veturna en vor og sumar sem ræðst mikið af magni og gæðum fóðursins. Það þarf að gæta sín á því að hross sem eru kviðmikil geta verið þunn á síðu. Þetta skal hafa í huga og ekki horfa aðeins á kviðinn, hann segir ekki alla söguna.

4. Hárafar. Góður holdafari fylgir oft slétt og glansandi hárafar en aflögð hross eru gjarnan mött og úfin.

5. Yfirbragð og augnsvipur. Hestur sem er vel á sig komin sýnir það oftast í háttalagi, hann verður upplitsdjarfari og sælli. Að sama skapi er hestur í lélegum holdum daufari og vansælli til augnanna.

 

Kvarði til að meta holdafar fyrir íslenska hestinn

Holdastig 1 - Grindhoraður
Öll rifbein sjást, skinnið er strengt á beinin og hvergi fitu að finna. Mikið gengið á vöðva, makki fallinn, herðar og hryggsúla standa mikið upp úr, lend holdlaus. 

Holdastig 1,5 - Horaður
Flest rifbein sjást. Fastur átöku. Verulega tekið úr hálsi, baki og lend. Hárafar gróft, strítt og matt. Mjög alvarleg vanfóðrun sem varða við lög um búfjárhald 103/2002 og ber tafarlaust að tilkynna viðkomandi héraðsdýralækni.

Holdastig 2 - Verulega aflagður
Flest rifbein finnast greinilega og öftustu sjást. Örlítil fita undir húð yfir fremri rifbeinum. Vöðvar teknir að rýrna, tekið úr makka og lend, hálsinn þunnur. Hryggsúla og herðar sjást vel. Hárafar matt og hrossið vansælt. Vanfóðrun sem bera að taka til sérstakrar aðhlynningar 

Holdastig 2,5 - Fullþunnur
Yfir tveimur til fjórum öftustu rifbeinum er mjög lítil fita, sem gjarnan er föst átöku, nema hrossið sé í bata. Vöðvar í lend, baki og hálsi ekki nægjanlega fylltir. Hrossið í tæpum reiðhestsholdum og þarf að bæta sig. 

Holdastig 3 - Reiðhestshold 
Tvö til fjögur öftustu rifbein finnast greinilega en sjást ekki. Yfir þeim er þunnt og laust fitulag (ca. 1 cm.). Lendin er ávöl og hæfilega fyllt. Bakið fyllt og jafnt hryggsúlu. Hárafar slétt og jafnt. 

 Holdastig 3,5 - Ríflegur
Yfir tveimur til fjórum öftustu rifbeinum er gott og laust fitulag. Öftustu rifbein má samt greina. Lend, bak og háls eru fallega vöðvafyllt og fitusöfnun má oft merkja t.d. fyrir aftan herðar. Hrossið er í ríflegum reiðhestsholdum og hefur nokkurn forða til að taka af.

Holdastig 4 - Feitur
Þykk fita á síðu, rifbein verða ekki greind. Bak mjög fyllt og hryggsúlan oft örlítið sokkin í hold.

Holdastig 4,5 - Mjög feitur
Greinileg fitusöfnun á hálsi, aftan við herðar og á lend.

Holdastig 5 - Afmyndaður
Rifbein finnast alls ekki, fitan mjög þétt átöku. Laut eftir baki og mikil dæld í lend. Keppir og hnyklar af fitu, á síðu, hálsi og lend. Óæskilegt, getur haft neikvæð áhrif á heilsufar. 

 

Flest hross eru á bilinu 3-4. Reiðhestshold eins og nafnið gefur til kynna eru hæfileg hold á hesti í brúkun og einnig er það viðunandi fyrir hross á útigangi yfir sumartíman. Hins vegar eru þau knöpp á haustinn eigi hrossið að ganga úti yfir veturinn. Hross sem eru að fara á útigang þurfa síðla hausts að hafa gott fitulag undir húð (holdastig 3,5-4).

 

Heimild: grein eftir Guðrúnu Jóhönnu Stefánsdóttur og Sigríði Björnsdóttur um mat á holdafari hrossa sem birtist í 7. tbl. Eiðfaxa árið 2008.