sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hólaskóli fær 40 milljónir

10. mars 2015 kl. 10:22

Hólaskóli

Endurbætur og uppbygging fyrir Landsmót 2016 kosta á annað hundrað milljónir króna.

Háskólanum á Hólum var úthlutað 40 milljónum úr ríkissjóði til endurbóta á útisvæði skólans. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Þar er rætt við Harald Benediktsson, þingmann Sjálfsstæðisflokks og meðlim í fjárlaganefnd Alþingis sem segir fjárhæðina ætlaða til þeirrar uppbyggingar sem þurfi vegna Landsmóts hestamanna 2016. Upphæðin kom inn á fjárlög eftir breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar.

Þar er einnig haft eftir Erlu Björk Örnólfsdóttur, rektor Hólaskóla að hún hafi ekki beðið um fjárveitinguna.

Brynhildur Pétursdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, gagnrýnir verklag fjárveitingarinnar. Hún segir að meirihlutinn hafi samþykkt margar beiðnir fyrir jól án þess að umsóknirnar hefðu verið ræddar í fjárlaganefnd.

Fjármagnið kemur að góðum notum fyrir Gullhyl ehf. sem þurfa sjálf þá að setja minna fé í framkvæmdir en Lárus Ástmar Hannesson, formaður Landssambands hestamannafélaga og varaþingmaður í kjördæminu, segist í samtali við Fréttablaðið ekki geta sagt hversu mikið kosti að koma svæðinu í lag fyrir Landsmót. Líklegt sé að það sé á annað hundrað milljónir króna.