miðvikudagur, 24. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hólaborg opnar

21. janúar 2010 kl. 12:38

Hólaborg opnar

Hestamiðstöðin Hólaborg í Flóa verður með opið hús um mánaðarmótin, eða helgina 30.-31.janúar  næstkomandi. Ingimar Baldvinsson eigandi Hólaborgar hefur heldur betur látið hendur standa fram úr ermum og er byggingin sem hýsir Hólaborg mjög glæsileg hvar sem á hana er litið.

Hólaborg er í rauninni miklu meira en venjuleg hestamiðstöð, miklu frekar er hægt að segja að hún sé þjálfunar- og líkamsræktarstöð fyrir hross. Fyrir utan glæsilegan reiðsal hefur verið komið fyrir stórri fetvél, en það er einskonar hringekja sem tekur nokkra hesta í einu.

Ingimar fræddi okkur um hringekjuna: „Í hringekjunni eru hestar látnir feta en hraðinn er stillanlegur og lengja hrossin skrefið eftir því hve hraðinn er aukinn. Þetta tæki mælist feikna vel fyrir alls staðar þar sem það er notað og er eitt algengasta þjálfunartæki fyrir hesta erlendis.“

Síðan er vatnshlaupabretti á staðnum og er það á tjökkum þannig að þegar hestarnir hafa verið settir inn í bás þess, eru þeir smámsaman látnir síga dýpra ofan í vatnið eftir að þeir hafa verið hitaðir upp. „Vatnið er alltaf er 20°heitt og öflugur hreinsibúnaður á að halda því tandurhreinu."

Önnur nýjung hér í Hólaborg, eru stíur með víbrandi gólfi en sá búnaður er hugsaður sem lækningartól til handa hestum sem hafa átt við einhver líkamleg vandamál að stríða. Þessi búnaður getur gert kraftaverk á tildæmis bólgnum fótum. Við víbringinn sem er stillanlegur, eykst blóðflæði en lækningarmáttur þess er mikill. Hestunum líður óhemju vel á þessu gólfi og vilja þeir helst ekki koma út úr stíunum að meðferð lokinni,“ sagði Ingimar.

Sjá nánar í myndböndunum með fréttinni.