fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hólaborg formlega tekin í notkun

Jens Einarsson
25. janúar 2010 kl. 10:25

Sjúkra- og þrekþjálfuanrstöð fyrir hross

Sjúkra- og þrekþjálfunarstöðin Hólaborg var formlega tekin í notkun síðastliðinn laugardag. Það var Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem vígði stöðina. Sagt frá stöðinni í Hestar&Hestamenn í 3. tölublaði, sem kom út í júlí 2009. Greinina má lesa hér fyrir neðan.

Hólaborg – Sjúkra- og þrekþjálfunarmiðstöð fyrir hesta

Sjúkra- og þrekþjálfnarmiðstöðin Hólaborg verður tekin í gagnið í haust. Stöðin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Ingimar Baldvinsson á Selfossi er eigandi stöðvarinnar.

Þörf fyrir þessa þjónustu

Ingimar stofnaði á síðasta ári nýbýlið Hólaborg í Flóa. Þar hefur hann reist 2000 fermetra skemmu, sem hýsir 40 hesta hesthús, rúmgóða reiðhöll, og endurhæfinga- og þjálfunar aðstöðu.

„Viðskiptahugmyndin er sú að reka hér sjúkra- og þrekþjálfunarmiðstöð fyrir hross. Þetta er ekki tamningastöð. Ég geri að vísu ráð fyrir að nýta sjálfur tíu pláss fyrir eigin hross.“

- Stöð sem þessi er ný af nálinni. Hefur þú trú á að fólk muni nýta sér þennan kost?

„Ég er alveg viss um það. Ég áætla að hér verði 30 hross á hverjum tíma. Ef við göngum út frá því að á Suðurlandi séu eitt þúsund reiðhross, þá er þetta ekki nema eitt prósent af þeim fjölda. Viðtökurnar sem ég hef fengið nú þegar benda til að það sé þörf fyrir þessa þjónustu.“

Allar réttu græjurnar

Ingimar hefur viðað að sér búnaði, sem er þrautreyndur í þjálfunarstöðvum víða um heim. Má þar nefna hlaupahring, vatnshlaupabretti og víbragólf. Á gólfi reiðhallarinnar er 60 sentimetra þykkur púði af trékurli, sem er mjúkur eins og rúmdýna. Allt miðast við að hægt sé að halda hrossi í formi án þess að reyna um of á fætur og liði.

„Ég geri ráð fyrir að allmargir muni nýta sér stöðina til að láta þrekþjálfa heilbrigð hross. En einnig hross sem hafa meiðst og ekki er auðvelt að halda í formi með hefðbundinni þjálfun. Hlaupahringurinn er kjörinn til að auka þrek, og eins til að bæta fet og brokk. Hlaupabrettið hefur margvísleg áhrif og þar skiptir vatnshæðin miklu máli. Tæknilegur ráðgjafi minn fann mjög snjalla lausn til að stilla vatnshæðina, sem auðveldar alla vinnu við það. Víbragólfið er þrautreynt í Skandinavíu í endurhæfingu á kerrubrokkurum. Það eykur blóðflæði og nuddar í raun allan líkama hestsins. Það hefur jákvæð og örvandi áhrif á meiðsli og bólgur og flýtir fyrir bata.“