mánudagur, 26. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hógværð og hlutleysi sé haft í heiðri

odinn@eidfaxi.is
14. desember 2013 kl. 16:41

Siðareglur líta dagsins ljós.

Mikil umræða skapaðist á vettvangi hrossaræktarinnar í kjölfari atviks sem varð á kynbótasýningu á Selfossi í vor, þar sem dómarar töluðu frjálslega um knapa, hross og ræktendur þeirra. Töldu menn trúverðugleika kynbótakerfisins í heild skaddað og köllun var eftir viðbrögðum forystumanna. Málþing um kynbótasýningar var svo haldið á Hvanneyri í haust og varð ein af niðurstöðum hennar að setja þyrfti skýrar vinnu- og siðareglur kringum kynbótasýningar.

Í framhaldi setti fagráð á lagginar vinnuhóp sem fékk það verkefni að semja drög að siðareglum kringum kynbótasýningar. Drögin voru lögð fyrir aðalfund félags hrossabænda og mældust vel fyrir. Siðareglunar hafa ekki tekið gildi en hér fyrir neðan má glugga í drögin:

Siðareglur varðandi kynbótasýningar

Kynbótasýningar hrossa byggja á lögum um búfjársýningar á vegum Bændasamtaka Íslands og reglugerð um uppruna Íslenska hestsins.  

Eftirfarandi vinnureglur kveða á um ábyrgð, vinnubrögð og samskipti starfsmanna og þátttakenda á kynbótasýningum.  Þá eru einnig sett fram viðmið um hæfi dómara gagnvart hugsanlegum hagsmunaárekstrum.  Þessar reglur miða að því að kynbótasýningar séu faglega traustur og hvetjandi vettvangur til heilla fyrir ræktunarstarfið.  

Vinnureglur þessar eru leiðbeinandi en geta ekki verið forsenda þess að dómur sem ákveðinn hefur verið af dómnefnd verði ógiltur eða honum breytt.  Eigandinn hefur þann valkost að fá endurdóm á hrossið á annarri sýningu.  Ferli umkvartana og agabrota auk hugsanlegra viðurlaga við þeim er útskýrt í reglunum.

Reglur um starfsmenn við kynbótadóma hrossa:

-       Starfsmenn skulu fylgja þeirri grundvallarreglu að störf þeirra veki traust og virðingu.  Þeir stundi fagleg vinnubrögð, tryggi jafnræði allra þátttakenda og styrki samstarf og samvinnu starfsmanna, eigenda og knapa. 

-       Starfsmenn skulu leitast við að auka faglega þekkingu sína.

-       Starfsmönnum ber að fara eftir lögum og reglum sem gilda um kynbótasýningar. 

-       Dómari komi ekki að dómstörfum ef aðalstarf hans er við hrossahald s.s. (ræktun, sölu eða stóðhestahald).

Dómari víki úr dómnefnd ef:

-       Dómari er hluthafi í, fyrrverandi eða núverandi eigandi að viðkomandi hrossi eða foreldris/foreldara þess.

-       Dómari er ræktandi að hrossinu eða foreldris/foreldra þess. 

-       Dómari hefur tamið eða þjálfað hrossið.

-       Dómari er eða hefur verið maki sýnanda, eiganda eða ræktanda eða er skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða blóðtengdur að öðrum lið.

-       Dómari hefur beinan fjárhagslegan ávinning af dómi hrossins.

-       Dómari hefur eða mun greiða viðkomandi knapa, eiganda eða ræktanda laun  eða eiga önnur fjárhagsleg viðskipti við hann á yfirstandandi ári.

-       Dómari er í aðalstarfi sínu undirmaður sýnanda, eiganda eða ræktanda hrossins.

Dómstörf.

-       Fordómalaus vinnubrögð séu ávallt höfð í heiðri. 

-       Góð framkoma, kurteisi, hógværð og hlutleysi sé haft í heiðri.

-       Símanotkun dómara sé takmörkuð við eðlileg samskipti formanns dómnefndar við starfsmenn sýningar.

Ábyrgð formanns dómnefndar.

-       Hann ber ábyrgð á framkvæmd dóma á viðkomandi sýningu.

-       Hann ber ásamt sýningarstjóra ábyrgð á að vellir, önnur aðstaða, mælingar og heilbrigðsskoðanir standist gæði og reglur.  

-       Hann skal sjá til þess að bæði íslenskum sérreglum og alþjóðlegum FIZO reglum sé fylgt.

-       Hann skal sjá til þess að dómstörf gangi hratt og vel fyrir sig og að niðurstaða fáist.

Ferli agabrota/kvartana. 

-       Stig 1. Ábyrgðarmaður hrossaræktar hjá RML.
Stig 2. Fagráð í hrossarækt.
Stig 3. Fagstjóri búfjárræktar. Eftir eðli og umfangi brots.

-       Ábyrgðarmaður hrossaræktar hjá RML getur áminnt dómara eða vísað frá dómstörfum til styttri eða lengri tíma sé reglum ekki fylgt.

-       Ábyrgðarmaður hrossaræktar er vanhæfur til að fjalla um agabrot/kvartanir á hærra kærustigi hafi hann áður tekið þátt í meðferð málsins á lægra stjórnsýslustigi.

-       Ábyrgðarmaður hrossaræktar er vanhæfur til að fjalla um mál hafi hann slík tengsl við málið sem er til meðferðar að það geti haft áhrif á meðferð máls. Þ.e. er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila eða ef hann hefur náin fjölskyldutengsl við aðila.

Reglur um knapa og umráðamenn:

-       Knapar sýni prúðmannlega reiðmennsku.

-       Knapar og umráðamenn sýni kurteisi og háttvísi í framkomu.  

-       Við brot á þessum reglum getur dómnefnd veitt knöpum og/eða umráðamönnum áminningu eða vísað frá sýningu.