fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hlutafélag um stóðhestinn Kvist frá Skagaströnd

Jens Einarsson
9. febrúar 2010 kl. 08:36

Hluturinn á 700 þúsund krónur

Hlutafélag hefur verið stofnað um stóðhestinn Kvist frá Skagaströnd. Ræktandi og fyrsti eigandi hestsins er Sveinn Ingi Grímsson. Hluturinn kostar 700 þúsund krónur. Áskráð regla er að stóðhestar í hlutafélögum séu seldir í sextíu hlutum. Samkvæmt því er heildarverðmæti hestsins metið á 42 milljónir. Þegar hafa sjö hlutir í hestinum verið seldir.

Kvistur er undan Hróðri frá Refsstöðum og Sunnu frá Akranesi, sem er undan Bylgju frá Sturlureykjum og Blæ frá Höfða, Gustssyni frá Sauðárkróki. Kvistur er einn af hæfileikamestu stóðhestum landsins. Hann er með 8,79 fyrir hæfileika, þar af 9,0 fyrir tölt, brokk, skeið og vilja. Einkunn fyrir sköpulag er einnig góð, 8,26, þar af 9,0 fyrir bak og lend, samræmi og prúðleika. Aðaleinkunn upp á 8,58.

Sunna frá Akranesi er ein öflugasta ræktunarhryssa landsins um þessar mundir. Hún er sjálf með góðan einstaklingsdóm, 8,16 í aðaleinkunn, þar af 8,52 fyrir kosti. Hún á fjórtán skráð afkvæmi. Sex eru með fullnaðardóm. Fimm eru með fyrstu verðlaun og eitt með 7,99 í aðaleinkunn. Öll eru afkvæmin reiðhestar og gæðingar.