laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hitafundur um kynbótasýningar á hringvelli

16. febrúar 2012 kl. 15:10

Hitafundur um kynbótasýningar á hringvelli

Fullt var út úr dyrum á fundi sem Hrossaræktarsamtök Suðurlands boðuðu til í gærkvöldi vegna fyrirhugaðra breytinga á fyrirkomulagi kynbótasýninga á komandi Landsmóti. Hljóðið var þungt í mörgum fundarmönnum og loftið rafmagnað. Til fundarins var Landsráðunauti Guðlaugi Antonssyni og Kristni Guðnasyni formanni Fagráðs í hrossarækt boðið til að skýra út aðdraganda og tilgang breytinganna.

 
Það leit út fyrir að þeir forustumenn greinarinnar hefðu lítinn áhuga á þeim athugasemdum og breytingum sem fundarmenn lögðu til. Flestir þeir sem stigu í pontu drógu í efa að þessi breyting væri til góðs en lögðu margir til hugmyndir um hvernig hægt væri að stytta sýningartímann og gera þær áhorfandavænni.
 
Í kjölfar þessa fundar hefur verið mikil umræða um framkomu þeirra Guðlaugs og Kristins á fundinum og mörgum finnst gjá vera kominn á milli forystu greinarinnar og grasrótarinnar. Sumir hafa jafnvel tekið svo djúpt í árina að þeir telji að þeim sé illa stætt áfram í starfi eftir fundinn í gærkvöldi.
 
Fjallað verður nánar um þetta mál á næstu dögum á vef Eiðfaxa.