laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hin fúla hrossapest og ráðaleysið!

22. júní 2010 kl. 12:05

Hin fúla hrossapest og ráðaleysið!

Guðni Ágústsson kom við á skrifstofu Eiðfaxa og hafði þetta að segja um hrossapestina:

„Í gærkvöldi gengum við Margrét um Gróttu, eins og myndin ber með sér. Við gáfum  henni Svandísi Sigurgeirsdóttur á Bakkatjörn og börnum hennar brauð að bíta í. Þau hjónin eiga fjóra unga í ár og trúa á lífið og framtíðina einsog öllum ber að gera. Svandís ungamóðir er mikil móðir.

Eitt sinn bjó í Nesi við Seltjörn formóðir mín úlfhildur Jónsdóttir hún var mikil móðir eignaðist með Stefáni sínum 24 börn, þar af voru tvennir þríburar og þrennir tvíburar og tólf einburar. Mikil afrekskona Úlfhildur.

Þegar við Margrét komum  að veginum að Gróttu var umferð þangað bönnuð fram í júlí til að verja varpið og fuglalífið. Þetta þótti okkur gott, virðing við náttúruna og lífið.

Allt í einu á göngunni mundi ég eftir upphringingu þegar ég varð Landbúnaðarráðherra. Í símanum var hann Páll A Pálsson yfirdýralæknir hann sagði við mig, nú þarft þú að kunna eitt orð sem ekki er vinsælt en þetta orð skiptir náttúruna og dýralífið á Íslandi öllu máli það er orðið,“NEI.“ Þín skylda er að verja mannfólkið og ekki síður dýrastofnana hér með því að segja nei við allskonar kröfum um innflutning á dýrum og matvælum sem geta hér reynst skeinuhætt og háskaleg.

Ég beitti þessu neii oft og var skammaður fyrir en stundum þakkað. Hingað hafa borist færri pestir en gerist og við eigum búfjárstofna sem eru einangraðir en heilbrigðari fyrir bragðið. Nú glíma hestamenn við skæða pest,landsmóti frestað og heilu stóðin hóstandi en ekki hneggjandi í haganum.
 
Hesturinn skapar atvinnuveg, bændurnir nálgast eitt þúsund sem hafa tekjur af hestinum og tugir þúsunda fólks í þéttbýli ræktar hesta og ríður út. Sagt er að fimm hundruð tamningamenn hafi misst vinnuna og bændurnir gangi um hlöðin ráðalausir. Menn héldu í fyrstu að um saklaust kvef væri að ræða en nú veit eiginlega enginn neitt, pestin tekur sig upp aftur og aftur.

Þarf lyf eða þarf ekki lyf hvað er þetta? Doktor Kári Stefánsson sem er hrossabóndi og læknir talar einsog óábyrgur „stjórnmálamaður“ og vill flytja inn pestir með því að leyfa innflutning á Íslandshestum  til baka svo að hrossin byggi upp varnir í líkamanum.
Hvernig væri nú fyrst að finna út hvaða pest er hér á ferðinni og hvað ber að gera.

Bakkabræður reyndu að bera sólskinið inní bæinn sinn í húfum sínum. Grunur leikur á að einhverjir hafi borið pestina inn í húfunni sinni eða á skítugum skóm. Ég minnist þess ekki síst vegna orða Páls að við í landbúnaðar-ráðuneytinu ræddum stundum um nauðsyn þess að koma upp GRÆNU HLIÐI í Keflavík og þá voru rækilegar upplýsingar í flugvélum um að ferðamenn innlendir og erlendir kæmu í fatnaði sem ekki hefði verið í snertingu við búpening erlendis. Að allir laxveiðimenn eða veiðimenn sótthreinsuðu stangir og búnað.

Ég hafði frétt að Ný-Sjálendingar gerðu slíka kröfu og áminningu með Grænu-Hliði hjá sér. Bústofnarnir þar eru auðlind eins og hér.
Hvað dvelur ráðamenn í að rannsaka þessa pest og snúast gegn henni af þekkingu?
Ekki trúi ég að Yfirdýralæknir og hans menn séu hornkerlingar í Matvælastofnun og að allt þar snúist um þá dauðu eða kjötið, en ekki lífið og heilbrigði búfjárins.

Þessi pest ógnar nú atvinnuvegi og einni dýrmætustu sameign okkar Íslendinga hestinum. Verði ekki  brugðist við, getur slíkt aðgerðarleysi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, þegar haustrigningar og vetur sækja landið heim á ný og stóðin varnarlaus og veik í haganum.
 
Landbúnaðarráðherra þekkir hestinn vel. Jón Á Hólum hefur komið að ævintýrinu um íslenska hestinn og veit hvað til síns friðar heyrir. Það veit einnig Kristinn í Skarði, Haraldur á Rein og nafni hans í Laugardælum. Þetta er dauðans alvara sem verður að taka föstum tökum og það strax, dýrmætur tími er farinn málið þolir enga bið. Síðan verða allir dýraverndunarmenn og ráðamenn þjóðarinnar að fara yfir hvernig staðið er að komu ferðamanna í Keflavík, Reykjavík eða Seyðisfirði. Hafa öll varnarstig verið lækkuð er eftirlit og aðhald til landsins bæði með íslendingum og útlendingum minna en áður var?

Er ekki full þörf á að setja upp hið GRÆNA-Hlið í Keflavík til varnar fólki og búfjárstofnunum.
Bændur með ær og kýr svín og hænsni geta líka átt von á enn verri pest ekkert síður en laxinn sem stiklar fossa og flúðir upp straumþungar ár. Margir muna írsku nautalundirnar sem ógnuðu hér mannlífi fyrir nokkrum árum.
Þá hlaut ég sem Landbúnaðarráðherra eðlilega gagnrýni bæði frá Vinstri-Grænum og Samfylkingu vegna innflutningsins á þessu kjöti sem Yfirdýralæknisembættið hafði leyft.

Sem betur fer drápu þær ekki mann hér eins og þar, en ógnin var til staðar. Kúariða gin og klaufaveiki og hvað þetta heitir allt guð forði okkur frá því að það berist hingað eins og svarti dauðinn forðum. Ísland býr við sérstöðu gagnvart sjúkdómum enginn vill sjá dýrin þjást það gerir hesturinn okkar í dag vegna kæruleysis.

Læknarnir verða að lækna og finna út mótefni við hrossapestinni og þjóðin að sameinast um viðbúnað og varnir. Til þess eru vítin að varast þau. Allir dýraverndunarmenn Íslands verða að styðja landbúnaðinn í þessari baráttu, ekkert síður en varpið í Gróttu."

                                                  Guðni Ágústsson
                                               Framkvæmdastjóri SAM.
                                             og fyrrv. Landbúnaðarráðherra.