mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hið mikilvæga bakland

odinn@eidfaxi.is
15. júní 2019 kl. 00:00

Sjálfboðaliðar á Landsmóti á Hellu

Án þess mikla starfs sjálfboðaliða væri mótahald erfiðara og kostnaðarsamara en það er.

Til þess að mótahald og keppnisfólk fái þá aðstöðu, umgjörð og utanumhald þarf mikla vinnu fjölda fólks í félagakerfi hestamennskunnar sem flest hvert vinnur allt sitt í sjálfboðaliðsstarfi. Án þeirra aðkomu væri mótahaldið óframkvæmanlegt eða þá mun kostnaðarsamara en það er með þeim aðferðum sem nú eru uppi. Fyrir utan það þá fer mjög stór hluti útgjalda hestamannafélaga í að byggja upp og viðhalda keppnissvæðum sem hlutfallslega lítill hluti borgandi félagsmanna nýtir.

Dags daglega er umræða um þessi mál ekki hávær og eru flestir félagsmenn í hestamannafélögum orðnir vanir því að stór hluti útgjalda félaganna fari til þessara mála, mögulega á kostnað þessa að hægt sé að fara í auknar framkvæmdir í sem dæmi reiðvegamálum, lýsingar reiðvega, átaksverkefna umhverfi hesthúsa og annað slíkt sem kemur öllum félögum til góða.  

Því vaknar sú spurning hvort að þeir sem standa fremstir í röðum hestamennskunnar sýni því fólki sem í baklandinu eru nóga endurgjöf fyrir það óeigingjarna starf sem þetta fólk leggur á sig?  

Væri það til eftirbreytni ef þeir knapar sem eru bakkaðir upp af félögum sínum sem byggt hafa upp frábæra aðstöðu til keppni víða um land og þar sem sjálfboðaliðar leggja á sig ómælda vinnu við framkvæmd móta myndu endurgjalda þessum félögum sínum stuðninginn í meira mæli er þeir hafa gert í dag?

Þessi endurgjöf gæti verið í formi þess að halda gjaldfrjáls námskeið / fyrirlestra fyrir þá sem unnið hafa sjálfboðastarf í þágu keppnishestamennskunnar. Eins gætu keppnismenn staðið fyrir til dæmis hreinsunardögum, fjáröflunum eða uppákomum þar sem þeir leggðu fram krafta sína hinum almenna hestamanni til hagsbóta? Með þessu gæti keppnisfólk sýnd félögum sínum þakklæti sitt í verki og miðlað til baka þekkingu sinni til þeirra sem standa þeim að baki í mótahaldinu. 

Sum félög hafa sýnt þessu fólki virðingu félagsins með viðurkenningum eins og hestamannafélagið Sleipnir sem veitir félaga ársins verðlaun ár hvert. Þar er almennur félagsmaður sem lagt hefur mikið á sig fyrir félagið heiðraður á árshátíð félagsins. Verðlaun sem þessi og endurgjöf þeirra sem njóta starfa þeirra sjálfboðaliða sem vinna í baklandi félaganna væri til þess fallin að þétta raðirnar innar félaganna. Með þessu gæti bilið á milli hins almenna útreiðamanns sem ekkert nýtir sé keppnisaðstöðu félaganna og keppnismanna minnka en keppnisfólk í fremstu röð er öllum félögum dýrmæt sem sterkar fyrirmyndir og ímynd út á við.