mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hið horfna hestakyn

5. nóvember 2013 kl. 15:00

Linus

Í kringum 1880 var nokkuð af villtum hestum sem gengu lausir um Oregon fylki. Sögurnar segja að meðal þeirra hafi gengið villihestar af ættboganum „Oregon Wild Long–haired Wonder horses.“

Þó að seinni tíma getgátur segi að hesturinn sé í rauninni ræktaður af mönnum,  væri það ævintýri líkast að sjá stóð af þessu kyni ráfa um fjöll og skóga Oregon fylkis.

 Þessi hestar höfðu nefnilega sérstakt útlit. Fax og tagl óx ört og varð svo sítt  að erfitt var að trúa lýsingunum nema að sjá hestana með berum augum.

 Frægasti afkomandi þessa stofns var kallaður Linus.  Hann var fæddur árið 1884.  Og ferðaðist um gjörvöll Bandaríkin þar sem að mön hans og stertur vöktu mikla athygli og furðu.

Lýsingin á honum í sýningarskránni hljómaði svona:

„Þegar Linus var fjögurra vetra uxu fax hans og tagl svo hratt að vöxturinn fór upp í allt að 7 cm á mánuði, þó að í dag vaxi það eins og á venjulegum hestum.  Linus ber fagurrauðan lit, glófextur með sokka á afturfótum og breiða blesu.  Hesturinn er tignarleg skepna sem ber sig með miklu stolti. Fax hans er nú 500 cm, ennistoppurinn er er 274 cm og tagl hans er 366 cm að lengd.“

Linus varð ekki langlífur en hann drapst þegar hann var 10 vetra.  Undan honum kom þó hestur að nafni Linus II, sem sagður var ekki síður bera kosti föður síns. Því miður er þessi sérstaki stofn útdauður í dag en mikið hefur verið skrifað um hann og  minningu hans haldið á lofti.

 Hér fyrir neðan má sjá mynd af LinusII

 

Meira um Linus og forfeður hans hér og hér 

 Síðfextir hestar af  sama kyni