mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Heyverð stendur í stað eða lækkar

Jens Einarsson
5. janúar 2011 kl. 10:27

Mikið framboð eftir nokkur góð heyskaparsumur

Heyverð stendur í stað og ekki ólíklegt að það muni lækka þegar líður á veturinn. Mikið framboð er á heyi hjá bændum eftir nokkur góð heyskaparsumur í röð. Styttri innistaða á reiðhestum í fyrra, sem rekja má til hrossapestarinnar, varð til þess að heysala var með minna móti. Nú lítur út fyrir að hestafólk í þéttbýli sé að spara við sig og taki almennt seinna á hús og færri hross en áður. Tíðin í haust hefur verið einstaklega góð og gjafatíminn í vetur verður þar af leiðandi styttri en í meðalári.

Vilhjálmur Þórarinsson í Litlu-Tungu, sem er stærsti heysali landsins, segir að hann muni halda sama verði og í fyrra. 250 kílóa ferbaggi kostar 7500 krónur með virðisauka komið í hús á höfuðborgarsvæðinu, eða 30 krónur kílóið með flutningi. Vilhjálmur segir að heyin séu þurr eftir gott sumar. Sem þýðir að heymagn í hverjum bagga er með meira móti.

Fleiri smærri aðilar auglýsa hey til sölu. Algengt verð á rúllum í hefðbundinni stærð er 5000 krónur rúllan fyrir utan virðisauka heima á hlaði.  Sem þýðir sirka 8000 krónur með virðisauka og flutningi. Hægt er að fá ársgamalt hey fyrir minna og er algengt verð 3500 krónur rúllan fyrir utan virðisauka, — heima á hlaði. Heymagn rúllu í meðalstærð er 280 til 380 kíló. Er þá miðað við allþurrt hey. Kaupin eru að sjálfssögðu betri eftir því sem heyið er þurrara.