miðvikudagur, 19. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Heyverð stendur í stað eða lækkar

29. desember 2009 kl. 14:26

Mikið til af fyrningum

Flest bendir til að verð á heyi verði það sama og í fyrra, og jafnvel lægra, þrátt fyrir að plast og olía hafi hækkað. Allmikið er til af fyrningum, einkum á Suðurlandi eftir nokkur góð heyskaparár. Dæmi eru um verð á fyrndum heyrúllum allt niður í 3500 krónur á staðnum. Fólk tekur þó töluverða áhættu þegar keyptar eru eldri heyrúllur. Meiri hætta er á skemmdum í heyinu eftir því sem rúllurnar eru eldri.

Vilhjálmur Þórarinsson, sem er einn stærsti heysali landsins, segir augljóst að erfitt verði að verðleggja heyið eftir framleiðslukostnaði. Hann gerir ráð fyrir að selja heyið á sama verði og síðastliðinn vetur, en þá kostaði 250 kílóa ferbaggi 7000 - 7500 krónur kominn heim í hús á höfuðborgarsvæðinu.

Verð á hagabeit, úti- og innifóðrun trippa og stóðhesta, er á reiki. Allmargir bjóða upp á slíka þjónustu en verðskrá liggur ekki fyrir í nærri öllum tilfellum. Algengt verð fyrir innifóðrun á folöldum og trippum er uppsett 5000 – 9000 krónur á mánuði. Mun dýrara er að láta fóðra fyrir sig fullorðinn stóðhest, allt frá 10.000 – 20.000 krónur á mánuði eftir því hvort hann er inni eða úti.