mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Heyskortur og hestaferðakrísa

21. apríl 2010 kl. 11:19

Öskufall og óvissa ekki skemmtilegir ferðafélagar

Ef gosið í Eyjafjallajökli dregst á langinn með tilheyrandi öskufalli mun stór hluti búpenings landsmanna verða á gjöf mun lengur en í venjulegu árferði. Það þýðir að ganga mun hratt á heyfyrningar, auk þess sem heyfengur á stórum svæðum gæti orðið minni en ella. Afleiðingin verður heyskortur og verðhækkun á heyi.

Áhrif gossins á hestaferðalög og hestatengda ferðaþjónustu gætu líka orðið veruleg. Einkum sunnan til á landinu þar sem hætta á öskufalli er mest. Hey er uppistaðan í fóðri ferðahesta á hálendinu. Ef bændur verða nískir á hey og hrossahagar hér og hvar mengaðir af ösku mun kreppa að ferðalöngum. Það er heldur ekki árennilegt að vera á hestum að fjallabaki ef hætta er öskufalli fyrirvaralítið. Og þess þá heldur ekki í þeirri óvissu um hvort Katla fær óstöðvandi hnerrakast eða ekki.

Ef áfram verður röskun á flugsamgöngum mun það líka hafa neikvæð áhrif á ferðaiðnaðinn, auk þess sem einhverjir kunna að slaufa ferðum vegna óvissunnar.