miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

"Hesturinn þarf að geta tuggið mélin"-

10. mars 2011 kl. 12:50

"Hesturinn þarf að geta tuggið mélin"-

Reglur um búnað knapa og hesta í keppni og breytingar á þeim voru hér á árum áður eitt aðal viðfangsefni nefnda undir FEIF...

og sá hluti starfsins sem einna mesta athygli hlaut. Ýmsir leiðandi reiðmenn komu fram með nýungar á Evrópu og heimsmeistaramótum, nýungar sem mönnum fannst síðan þurfa að banna á þingum í framhaldinu.
Skáreim undir stangir var lengi bönnuð en skaut svo allt í einu upp kollinum aftur, hafði verið laumað í gegnum umræður án þess að mikið væri eftir því tekið.
Á nýafstöðnum aðalfundi FEIF var tekin ákvörðun um að banna skáreimina aftur. Eiðfaxi hafði samband við nokkra þjálfara og keppnisknapa og leitaði álits þeirra á þessari breytingu og við byrjuðum á Þorvaldi Árna Þorvaldssyni:
„Ég hef satt að segja ekki velt þessu mikið fyrir mér, hef sjálfur ekki notað þennan búnað mikið. Í mínum huga þurfa stangirnar ákveðið svigrúm og frelsi til þess að geta virkað rétt. Hesturinn þarf að geta hreyft munninn til þess að geta tuggið og gælt við mélin. Fast njörvaður múll, svo ég tali nú ekki um með skáreim heftir þessa hreyfingu. Þá virka stangirnar ekki rétt. Ég vil einnig minnast á það að sé beislið stillt full stutt uppi í hestinum eyðileggur það einnig virkni stanganna.
Mér finnst það einnig vera ljótt að sjá meira af ólum og búnaði á höfði hestsins en nauðsynlegt er að nota og hugsanlega gefur það líka ranga ímynd til þeirra sem eru að sjá Íslenska hestinn í fyrsta sinn“ sagði Þorvaldur árni að lokum.