miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hesturinn hluti af alþjóðlegri landkynningu -Dagskrá Hestadaga í Reykjavík-

2. mars 2011 kl. 16:27

Hesturinn hluti af alþjóðlegri landkynningu -Dagskrá Hestadaga í Reykjavík-

Landssamband hestamannafélaga, Icelandair, Iceland Travel, Höfuðborgarstofa stendur fyrir vikulangri hátíð helguð Íslenska hestinum, svokölluðum “Hestadögum í Reykjavík” (e. Icelandic Horse Festival) og er þessi stórviðburður hluti af landkynningunni Inspired by Iceland.

Eiðfaxi náði tali af Oddrúnu Ýr Sigurðardóttur, talsmann hátíðarinnar, sem sagði að viðburðurinn þjónaði sem alþjóðleg kynning á íslenska hestinum. Hún sagði einnig að lagt væri upp með fjölskylduvæna og fræðandi viðburði. Meðlimir hestamannafélaga á stór-höfuðborgarsvæðinu, Andvari, Fákur, Gustur, Hörður, Sóti og Sörli tæku virkan þátt í undirbúning hátíðardaganna, margir hverjir í sjálfboðastörfum.

Dagskrá Hestadaga í Reykjavík er uppfull af ótrúlega fjölbreyttum viðburðum: fræðsluferðir, kvikmyndsýningar, fyrirlestrar, litasýningar, hestaleikar, fagsýningar, teymingar undir Hafnfirskum skólabörnum! Hápunktur hátíðarinnar verður laugardaginn 2. apríl þegar skrúðreið, undirbúin af öllum fyrrnefndum hestamannafélögunum, verður farin upp Laugaveg að Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum þar sem við tekur stór fjölskylduhátíð.

Hér má líta á dagskrá Hestadaga í Reykjavík:

 

Mánudagur  28. mars

Kynbótaferð á Suðurland - Ræktunarbú ársins síðastliðin 3 ár, Ketilsstaðir/Syðri-Gegnishólar, Strandarhjáleiga og Auðsholtshjáleiga, verða heimsótt. Ferðinni lýkur í Ingólfshöll, þar sem Ölfusingar munu standa fyrir sýningu.

Bíó Paradís sýnir hestamynd um kvöldið.

 

Þriðjudagur 29. mars

Kynbótaferð á Vesturland, þar sem ræktunarbú verða heimsótt, að Mið-Fossum verður kennslusýning í samvinnu við Landbúnaðarháskólan á Hvanneyri. Þá verða kynbótadómarar með fræðsluerindi og útskýringar á helstu atriðum kynbótadóma og ræktunar.

Bíó Paradís sýnir hestamynd um kvöldið.

 

Miðvikudagur 30. mars

Félag tamningamanna stendur fyrir kennsluýningu í reiðhöllinni Gusts.

 

Fimmtudagur 31. mars

Sýning og kynning á námi í Háskólanum á Hólum í reiðhöll Harðar í Mosfellsbæ.

Um kvöldið stendur hestamannafélagið Hörður fyrir sölusýning með þjóðlegu ívafi í reiðhöllinni.

 

Föstudagur 1. apríl

Hátíðin færist til Hafnafjarðar. Þá munu leikskólar í Hafnafirði fá hesta í heimsókn, er það hluti af kynningu á sýningunni Æskan og hesturinn. Hestar og söngvarar mæta á Thorsplan kl. 16-18. Þá verður hópreið í lögreglufylgd upp Reykjavíkurveg að Fjarðarkaupum. Á bílastæði Fjarðarkaupa stendur hestamannafélagið Sörli svo fyrir Hestaleikum.

Um kvöldið verður sýning í reiðhöllinni í Víðidal. Þar verða atriði frá hverju hestamannafélagi fyrir sig auk þess sem unglingarnir úr sýningunni Æskan og hesturinn stíga á stokk.

 

Laugardagur 2. apríl

Lokadagur hátíðarinnar hefst á skrúðreið upp Laugarveginn. Öll hestamannafélögin taka þar höndum saman til að gera skrúðreiðina mikilfenglega, og er því búist við miklu sjónarspili.

Skrúðreiðin endar í Laugardal með stórri fjölskylduhátíð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum milli kl. 13 - 16. Þar verður margt á boðstólnum s.s. hestateymingar, hesta- og handverksþorp þar sem ýmsar kynningar og varningur verður til sölu. Þá verður gangtegundasýning, sögusýning, litasýning og tónlistaratriði.

Á laugardagskvöldinu fer svo fram hin árlega ístöltskeppni „Þeir allra sterkustu” í Skautahöllinni í Laugardal. Þar mæta til leiks allra bestu knapar og hross landsins. Keppnin er allra jafna mjög spennandi og mikil upplifun fyrir áhorfendur.

 

Að auki

Einnig er rétt að minna einnig á viðburði sem fara fram 26. og 27. mars, eins konar undanfara Hestadaganna.

Annars vegar verður stórsýningin “Orri í 25 ár” í Ölfushöllinni laugardagskvöldið 26. mars þar sem farið verður yfir sögu og áhrif Orra frá Þúfu á íslenska hrossarækt. Reiknað er með að 60-80 hross út af Orra taki þátt í sýningunni, ásamt Orra sjálfum. Nánari upplýsingar má nálgast í frétt Eiðfaxa hér.

Þann 27. mars stendur hestamannafélagið Hörður í samstarfi við styrktarfélagið Líf fyrir opnu mót “Lífstöltinu” til styrktar Kvennadeild Landsspítalans. Mótið fer fram í reiðhöll Harðar og  gefa allir sem standa að því vinnu sína. Aðgangseyrir og skráningargjöld verða frjáls og rennur óskipt til málefnisins.