föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestur á ísilögðu síki-

13. febrúar 2012 kl. 09:36

Hestur á ísilögðu síki-

Skautafólk og íbúar húsbáta í Amsterdam ráku upp stór augu um helgina þegar hollenska hestakonan Cunera Rauwerda reið Hraða frá Úlfsstöðum á fallegu tölti á ísilögðu síki. Fólk stoppaði í forundran til að horfa á, enda ekki dagleg sjón að sjá hesti riðið á ís þar í landi. „Hraði er réttnefni á þessum yndislega hesti, hann er mikið framhugsandi,“ sagði Cunera glöð í bragði, í samtali við Eiðfaxa. „Klárinn kom út til okkar í síðustu viku og þetta var í þriðja sinn sem ég fór á bak honum. Hann lét sér hvergi bregða þótt skautafólk og annað óvenjulegt bæri fyrir augu. Að sjálfsögðu fór ég varlega, enda er Hraði að aðlagast nýjum heimkynnum.“ Holland hefur ekki farið varhluta af kuldatíðinni sem hefur verið á meginlandi Evrópu síðustu vikur og eru flest vötn og síki frosin þar í landi.

 
Hraði frá Úlfsstöðum er fjórgangshestur sem hefur hlotið 8,23 fyrir hæfileika í kynbótadómi, þar af 9 fyrir tölt og 9,5 fyrir vilja og geðslag. Hann er undan Keili frá Miðsitju og Orradótturinni Hnátu frá Úlfsstöðum. „Hraði verður fyrst og fremst notaður sem keppnishestur og það verður áskorun að fá jafn háar einkunnir hér ytra og hann fékk í keppni á Íslandi. Töltið er hans besta gangtegund og algert úrval. Svo sannarlega hef ég fengið drjúgan skerf af íslenskum krafti hingað út til Hollands,“ segir hún, kát eftir reiðtúrinn.
 
Cunera Rauwerda og Marije, systir hennar, hafa unnið að því síðustu misseri að koma upp hrossaræktarbúinu Skoti í Amsterdam og eru þær eingöngu með íslenska hesta. Mikill hugur er í þeim systrum og samstarfsfólki þeirra og líta þær björtum augum til framtíðar með rekstur sinn.