mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestenes Klang kvikmynduð á Íslandi

13. september 2012 kl. 12:41

Live Bonnevie. Sögusvið bókar hennar Hestenes Klang, Eskifjörður, í bakgrunni.

Norski rithöfundurinn og Íslandshestakonan Live Bonnevie í sinni fyrstu heimsókn til Íslands.

Norski rithöfundurinn og Íslandshestakonan Live Bonnevie er nú stödd hér á landi við undirbúning kvikmyndar sem byggð verður á metsölubók hennar Hestenes Klan, sem kom út í Noregi 2010. Sagan í bókinni gerist á Eskifirði en myndin verður þó líklega mynduð á Suðvestur horninu. Líkur eru á að tökur fari fram strax á næsta ári. Þrátt fyrir að hafa verið heilluð af íslenska hestinum í þrjátíu ár er þetta fyrsta heimsókn Live til Íslands.

Bókin fjallar um unga stúlku sem hefur náð góðum árangri í keppni á stórum hestum. Faðir hennar er rusti með spilafíkn. Hann fær veður af háum verðlaunum í keppni á íslenskum hestum og otar dóttur sinni í slaginn, með litlum fyrirvara. Kynni stúlkunnar af íslenska hestinum eiga eftir að breyta viðhorfi hennar til hesta og hestamennsku. Hún uppgötvar meðal annars töfra þess að ríða hestinum án reiðtygja.

Live segir að sagan sé byggð á hennar eigin reynslu. Tilgangurinn með bókinni hafi verið sá að gefa fólki innsýn í þá reynslu og minna hestafólk á að sennilega höfum við misst sjónar á mikilvægum þætti í hestamennskunni; að varðveita stolt og reisn hestsins. „Mig langaði að skrifa bók sem ég óska að ég sjálf hefði fundið fyrir þrjátíu árum,“ segir Live Bonnevie.