þriðjudagur, 19. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestatöskur á 500 þúsund krónur

Jens Einarsson
18. febrúar 2010 kl. 11:01

Vilja ferðast á hestum lausir við bíla

Vandaður klifsöðull úr leðri, eins og sést fyrir miðju á þessari mynd, kostar hvorki meira né minna en 500 þúsund krónur. Sem mörgum kanna að þykja mikið við fyrstu sýn. Handsmíðaður klifsöðull er hins vegar ævieign og þeir sem hafa ferðast um hálendið með töskuhesta árum og áratugum saman finnst verðið mjög sanngjarnt.

Strigatöskur helmingi ódýrari

Sigurður Björnsson, söðlasmiður, segir það nú færast aftur í vöxt að fólk kjósi að ferðast á hestum án þess að hafa bíla með í för. Matur, skeifur, áhöld og aðrar nauðsynjar eru þá hafðar í töskum á klifsöðli. Hann segir að hann sé nú að smíða nokkra klifsöðla upp í pantanir fyrir sumarið. Þeir eru þó ekki eins dýrir og sá á myndinni, því töskurnar eru úr striga, sem er ekki nærri því eins dýrt efni og leðrið. Þær eru þó eigi að síður níðsterkar og duga flestum út ævina. Alla vega þeim sem kaupa klifsöðul á miðjum aldri. Klifsöðull með strigatöskum kostar um 250 þúsund krónur.