sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestasamkomur verði blásnar af

26. maí 2010 kl. 13:20

Björn Steinbjörnsson rannsakar hrossapestina

Fram kemur í Fréttablaðinu í morgun að dýralæknarnir Björn Steinbjörnsson og Susanne Braun rannsaka nú hrossapestina á eigin vegum, í samstarfi við tvo dýralæknaháskóla í Þýskalandi, í Hannover og Giessen. Björn segist hafa lagt til fyrir mánuði síðan að öll veik hross yrðu sett í einangrun og allt sýningahald blásið af. Svo virðist sem hross myndi ekki mótefni gegn veirunni og hafi smitast aftur eftir að hafa náð sér eftir fyrri veikindin. Hann vill ekki fullyrða að svo sé en segir að ekkert vit sé í að halda hestasamkomur meðan sjúkdómurinn sé óþekktur.

Hugsanlega stökkbreyttur heimavírus

Björn segir að hugsanlegt sé að veira sem þekkt er í íslenska hrossastofninum hafi stökkbreyst og framkalli þessa sýkingu. Svo virðist sem hross sem flutt voru til Þýskalands frá Íslandi í vetur hafi smitað hross þar ytra, sem hafi veikst og sýni sömu einkenni og hrossin hér heima.

„Við erum núna með hundrað hross í rannsókn á hrossabúum á Suðurlandi og erum búin að senda sýni úr þeim á tvær rannsóknarstofur í Þýskalandi, á dýralæknaháskólunum í Hannover og Giessen,“ segir Björn. „Það er ennþá ekki búið að greina vírusinn en hringurinn er að þrengjast um vissan veiruhóp. Við fáum upplýsingar í lok vikunnar sem vonandi varpa ljósi á hvaða veira það er sem veldur sjúkdómnum. Það er ekki útilokað að það sé veira sem hefur stökkbreyst hér heima, þótt ég vilji ekkert fullyrða um það að svo stöddu.“

Hrossasamkomur verði blásnar af

„Það er ekki mitt að kveða upp úr með það hvort halda eigi Landsmót eða ekki. En ég lagði það til fyrir mánuði síðan að allar hestasamkomur yrðu stöðvaðar tímabundið,“ segir Björn. „Á meðan ekki er vitað hvaða vírus um er að ræða eða hver eftirköst sjúkdómsins kunna að verða, þá er ekkert vit í að halda áfram mótahaldi eins og ekkert hafi í skorist. Ástandið hefur síst batnað síðan og ég er ennþá sömu skoðunar. Það á að reyna að einangra veik hross eins og kostur er og forðast hestasamkomur af öllu tagi. Þar er smithættan mest.“