laugardagur, 15. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestasamkomur ekki bannaðar

28. maí 2010 kl. 12:10

Líklegt að safnstíur auki smitálag

Líklegt er talið að svokallaðar safnstíur séu jafnframt gróðrarstíur fyrir streptókokka sem taldir eru ein aðal ástæðan fyrir þeim veikindum sem nú hrjá íslensk hross. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, segir að besta ráðið til að stytta veikindatíma hrossanna og hugsanlega komast hjá því að þau fái hósta, sé að minnka smitálagið með því að koma hrossum út undir bert loft, og jafnframt að moka út úr safnstíum og sótthreinsa hesthús.

Hreinlæti styttir veikindatímann

„Við teljum ennþá að það sé veira sem sé undirliggjandi ástæða hestapestarinnar. Það er hins vegar orðið ljóst að það eru streptókokkar sem valda alvarlegustu einkennunum og eru líka bráðsmitandi. Við teljum að safnstíur eigi stóran þátt í að viðhalda smitálagi í hesthúsum. Mörgum hrossum er gefið á stíugólfið. Horinn lekur niður í stíurnar og lifir þar sjálfstæðu lífi og bakteríurnar geta jafnvel fjölgað sér. Ég vil því ráðleggja hestafólki að moka út úr safnstíum, rýmka á hrossunum eins og kostur er og sótthreinsa hesthúsin. Tilraunir sem hafa verið gerðar varðandi minnkað smitálag með þessum hætti hafa sýnt árangur. Það er hægt að stytta veikindatímann,“ segir Sigríður.

Hestasýningar verða ekki bannaðar

Hestasamkomur, kynbótasýningar og úrtökur, verða ekki bannaðar af hálfu yfirdýralæknis. Sigríður segir að of seint sé að hefta útbreiðslu hestapestarinnar og viðbragðsáætlun verði ekki virkjuð héðan af.

„Við höfum ekki virkjað viðbragðsáætlun okkar og það er ekki á döfinni. Ástæðan er fyrst og fremst sú að smitið er orðið mjög útbreytt og ekki hægt að stoppa faraldurinn með þeim aðferðum. Ef við hefðum áttað okkur á því þegar hann var á byrjunarstigi þá hefðum við trúlega brugðist öðruvísi við. En því miður þá var pestin komin það víða þegar menn áttuðu sig á hvað um var að ræða, að það var orðið um seinan að hefta útbreiðslu hennar. Ég mun því ekki leggja til sýningabann en treysti því að knapar og hestafólk almennt láti heilbrigði hrossa sinna sitja í fyrirrúmi,“ segir Sigríður.