laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestar&Hestamenn á morgun fimmtudag

Jens Einarsson
17. febrúar 2010 kl. 09:53

Fullt blað af hestum og fólki

Hestar&Hestamenn koma út með Viðskiptablaðinu á morgun, fimmtudag. Í blaðinu er viðtal við Ágúst Sigurðsson, rektor á Hvanneyri og hrossabónda í Kirkjubæ. Hann telur að hestamenn ættu að skoða hvort stofna eigi ný heildarsamtök hestamanna.

Í blaðinu er einnig úttekt á Landsmóti hestamanna í Reykjavík. Rætt er við Bjarna Finnsson, formann Fáks, Björn Bjarnason, formann Sörla, og Hermann Vilmundarson, formann Gusts. Einnig hrossabændurna Gunnar Arnarson og Ágúst Sigurðsson.

Spjallað er við Svein Inga Grímsson og Líney Jósefsdóttur, sem eru ræktendur hrossanna frá Skagaströnd. Þau voru ekki með á prjónunum að rækta hross þegar þau eignuðust Sunnu frá Akranesi í skiptum fyrir nokkra línubala.

Við ræðum við unga tamningakonu úr Miðfirðinum, Aðalheiði Einarsdóttur, sem fór ríðandi yfir Kjöl þriggja ára og fer á hverju ári með föður sínum í lengri hestaferðir. Hún er nú við tamningar í Efra-Langholti í Hrunamannahreppi.

Við skoðum ævi og ættir Hvins frá Holtsmúla, sem hefur unnið sér til frægðar að verða tvisvar heimsmeistari í tölti. Hann hefur nú verið seldur til Noregs og verður reiðhestur frúarinnar á Stall Myra, en þar á einnig heimili heimsmeistarinn í fimmgangi, Tindur frá Varmalæk. Giskað er á að Hvinur hafi kostað 30 til 50 milljónir króna.

Þetta og margt fleira í Hestar&Hestamenn sem kemur út með Viðskiptablaðinu á morgun.