laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestapestin raskar mótahaldi

27. apríl 2010 kl. 14:10

Gæti haft áhrif á undirbúning Landsmóts

Hestapest sem hefur gengið í hrossum hér á landi undanfarnar vikur er farin að raska mótahaldi umtalsvert. Svo virðist sem einkenni pestarinnar hafi ágerst eftir því sem á líður. Nokkrum hestasýningum og mótum hefur þegar verið frestað.

Sigríður Björnsdóttir, landsdýralæknir hrossa, sagði í viðtali við H&H fyrir skömmu að hún teldi ekki líkur á að pestin kæmi til með að hafa áhrif á Landsmót. Öndunarfærasjúkdómar fjöruðu yfirleitt út þegar hlýnaði í veðri á vorin. En svo virðist sem pestin sé frekar að ágerast og að meðgöngutími hennar sé að lengjast, allt upp í þrjár vikur í staðinn fyrir eina til tvær. Það gæti því farið svo að pestin raskaði kynbótasýningum og úrtökumótum ef útbreiðsla hennar heldur sama dampi. Og þar með haft áhrif á Landsmótshaldið. Í það minnsta undirbúninginn.

Vitað er til að pestin hafi lónað í hrossum á tamningastöðvum í allt að tvo mánuði. Einnig virðist sem meðgöngutími pestarinnar lengist hef hrossin eru brúkuð á meðan þau sýna einkenni, jafnvel þótt þau séu væg.

Stórsýning Fáks í Reiðhöllinni í Víðidal er á dagskrá um helgina. Jón Finnur Hanson, framkvæmdastjóri Fáks, segir að ennþá sé stefnan að halda þeirri dagskrá. Hins vegar sé til umræðu að fresta Reykjavíkurmeistaramóti Fáks sem er á dagskrá 5. – 9. maí. Ákvörðun um það hafi þó ekki verið tekin ennþá.