þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestapestin lamar kennslu á Hólum

4. maí 2010 kl. 11:58

Engin Skeifukeppni haldin á ár

Öll verkleg kennsla á hrossabraut Hólaskóla liggur niðri vegna hestapestarinnar sem nú geisar. Engin Skeifukeppni verður haldin í ár. Lokapróf nemenda á fyrsta ári hafa verið felld niður og kennaraeinkunn gefin í staðinn. Lokaprófum nemanda á þriðja ári hefur verið frestað þar til í vikunni fyrir Landsmót, og hugsanlega fram í ágúst.

Alvarlegri en í fyrstu var talið

Þórarinn Eymundsson, reiðkennari á Hólaskóla, segir að kvefpestin, sem virtist sakleysisleg í fyrstu, sé í raun grafalvarleg og geti haft ófyrirsjánlegar afleiðingar á mótahald í vor og fram á sumar.

„Pestarinnar varð fyrst vart hér á Hólum í einu hesthúsi af þremur um miðjan mars. Það liðu síðan nokkrar vikur þar til síðustu hrossin í húsinu, sem er 40 hesta hús, fóru að sýna einkenni. Og það er fyrst núna að við erum farin að þjálfa nokkur hross í því húsi. Í tveimur öðrum hesthúsum skólans er pestin ennþá í hámarki. Þannig að verklegri kennslu við hrossabrautina er sjálfhætt. Sjálfur er ég fyrst núna að byrja aftur á þeim keppnis- og sýningahrossum sem ég er með og eru búin að ganga með pestina í nokkrar vikur.

Gæti sett sýningahaldið úr skorðum

Þórarinn segir að það þurfi engan sérfræðing til að sjá að pestin muni setja sýningarhaldið á næstum vikum úr skorðum.

„Alvarleikinn á eftir að renna upp fyrir mönnum þegar líður á maímánuðinn. Ef pestin hagar sér eins næstu vikurnar og hún hefur gert hér á Hólum í vetur, þá liggur það á borðinu og menn geta ekki þjálfað hrossin. Sem betur fer eru einkennin ekki mjög alvarleg ef hrossin fá frið til að jafna sig. En sum eru greinilega slöpp eftir veikindin og það mun taka tíma að ná þeim í form aftur. Mér sýnist að meðganga pestarinnar sé þrjár til fimm vikur og síðan þarf að fara mjög rólega af stað í þjálfuninni. Það þarf því engan sérfræðing til að sjá að það verður mikil pressa í sýningahaldinu síðustu vikurnar fyrir lokaskráningu á Landsmót,“ segir Þórarinn.