laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestapestin drepur ekki ræktunaráhugann

Jens Einarsson
2. júní 2010 kl. 14:19

Stjörnustóðhestar sinna nú hryssum

Hestapestin hefur ekki náð að drepa áhuga hrossaræktenda. Stóðhestar sem stefnt var með á Landsmót og hefðu aðeins sinnt fáum hryssum fram yfir mót, eða jafnvel engri, eru nú komnir í fulla notkun. Sem stóðhestar!

Magnús Svavarsson á Blesastöðum 1a segir að það sé ákveðinn léttir að botn skuli kominn í Landsmótsmálið. Nú sé hægt að snúa sér af krafti að öðrum hlutum.

„Sem betur fer hefur pestin ekki náð að drepa ræktunaráhugann hjá fólki,“ segir Magnús. „Við erum með eina fimm stóðhesta sem við erum að leiða undir og áhuginn er engu minni en verið hefur, þannig að það er mjög jákvætt. Fyrstu upplýsingar gefa líka til kynna að pestin sé ekki að hafa áhrif á frjósemina. Það er búið að sóna sjö hryssur undan Kráki og fimm eru fengnar. Þær tvær sem eru það ekki eru þekktar fyrir ófrjósemi. Við byrjum síðan að sóna undan hinum hestunum innan skamms.“

Þeir hestar sem eru á húsnotkun á Blesastöðum eru, fyrir utan flaggskipið Krák, Möller, Óskar og Fláki frá Blesastöðum, og Krákssonurinn Mjölnir frá Hlemmisskeiði.