mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestamennskan er fjölbreytileg

9. júlí 2019 kl. 13:50

Reiðtúr á fallegum degi.

Ritstjórapistill síðasta tölublaðs

 

Nú á vordögum hlotnaðist mér sá heiður að verða ritstjóri Eiðfaxa. Reynsla mín eða þekking af fjölmiðlun er ekki ástæða þess að ég ákvað að sækja um starfið. Heldur einskær áhugi minn á viðfangsefni blaðsins, íslenska hestinum og öllu því sem honum fylgir.


                Ég ólst upp við það sem má kalla frístundahestamennsku. Foreldrar mínir áttu, og eiga hesthús á Selfossi, þar sem við fjölskyldan stunduðum útreiðar. Yfirleitt voru hross tekin á hús síðla vetrar. Foreldrar mínir kenndu mér að bera virðingu fyrir hestinum og nálgast hann sem vin og félaga. Ég þakka oft fyrir það að hafa mátt fara í áhyggjulausa reiðtúra þar sem markmiðið var einungis að njóta og hafa gaman. Seinna meir fór ég að vinna við tamningar á sumrin og þá fyrst á Langsstöðum í Flóa, það sumar lærði ég að detta af hestbaki. Það má segja að ég hafi, meira og minna, ýmist verið í frjálsu falli eða að klöngrast á bak hestinum eftir mismjúkar lendingar. Eftir að ég náði valdi á því að fylgja hestinum, jókst áhugi minn á því að taka þátt í keppni og hef ég fikrað mig örlítið áfram á þeirri braut. Ekki unnið neina stóra titla en örfá smáafrek. Ég ákvað í framhaldinu að það ætti meira við mig að verða dómari. Ég hef verið gæðingadómari nú um nokkra hríð og hef til að mynda dæmt síðastliðinn tvö Landsmót. Göngur og réttir eru þó það sem mér þykir einna skemmtilegasti hlutinn af hestamennsku. Hef farið í alls 18 ferðir á Flóamannaafrétt bæði í fjall- og eftirsafn. Tilfinningin að vera með tvo til þrjá hesta til reiðar á veglausum afréttum og kynnast þannig dugnaði og þoli hestsins er engu lík. Áhuginn á ræktun er einnig mikill og hef ég menntað mig í þeim fræðum frá Búvísindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Síðastliðið haust breytti ég síðan til og hélt norður í land og nam reiðmennsku við Háskólann á Hólum.


                Ástæða þess að ég skrifa hér niður „ævihlaup“ mitt í hestamennsku er ekki til þess að monta mig af sjálfum mér á nokkurn hátt. Ástæðan er sú að minna þig, lesandi góður, á það hvað hestamennskan er fjölbreytileg. Markmið Eiðfaxa er einmitt að spanna öll svið hestamennskunnar og gefa út faglegt, fræðandi og skemmtilegt hestatímarit. Eins og lesendur Eiðfaxa hafa tekið eftir hefur umfjöllun og fréttaflutningur, bæði á vef Eiðfaxa sem og í blaðinu, verið á undanhaldi undanfarinn ár. Ástæður þess eru ýmsar, en ekki verður farið nánar út í þá umræðu hér. Ég get þó sagt að ef ekki hefði verið fyrir tilstilli Óðins Arnar Jóhannssonar, fyrrum ritstjóra, hefði blaðið að öllum líkindum lognast útaf. Ég vil því nýta tækifærið og þakka honum fyrir það starf sem hann hefur lagt til við það að halda úti fagtímariti um íslenska hestinn.


                Nú hafa hinsvegar nýir eigendur tekið við og blásið hefur verið til sóknar. Metnaður þeirra er að gera miðlinum hátt undir höfði. Það er von mín að í sameiningu getum við hestamenn haldið úti miðli sem spannar allt það svið sem þessi vinsæla íþrótt og tómstundagaman hefur upp á að bjóða. Ég þakka því hér það traust sem nýjir eigendur sýna mér og vonast til að þess að geta hægt og rólega aukið fréttaflutning og umfjöllun um íslenska hestinn bæði í blaðinu sem og á vefnum.

Gísli Guðjónsson - Ritstjóri Eiðfaxa