þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestamennska FT

22. febrúar 2011 kl. 10:05

Tveir hestar fara afturfótasnúning. Mette Mannseth situr Hátt og teymir Hnokka.

Góð byrjun, en flottir hestar illa séðir

JENS EINARSSON - UMFJÖLLUN:

Ný keppnisgrein, Hestamennska FT, var kynnt á 40 afmælishátíð Félags tamningamanna. Aðalhöfundar eru Eyjólfur Ísólfsson og Benedikt Líndal. Fleiri komu að verkefninu, svo sem Reynir Aðalsteinsson, Trausti Þór Guðmundsson og Atli Guðmundsson.

Hugmyndin að baki Hestamennsku FT er að hanna keppnisgrein þar sem grunngildin (rétt og góð uppbygging og þjálfun, góð reiðmennska og sanngjarnar ábendingar) gilda meira til einkunnar en markmiðin (sama hvernig þeim er náð). Það tókst vel. Einnig var lagt upp með að hafa keppnisformið opið, þannig að hver keppandi semdi sitt prógram nánast alveg sjálfur, með einni skylduæfingu. Það sýndi sig hins vegar að vera galli. Atriðin urðu of sundurlaus. Í heild varð keppnin að forminu til einhverskonar samsuða af Smala og Gæðingafimi. Sennilega er betra að byggja keppnina meira upp á skylduæfingum með einu frjálsu atriði. Gæti verið mismunandi á milli styrkleikaflokka.

Sex keppendur tóku þátt í þessari frumraun. Keppt var í einum flokki, en hugmyndin er að síðar meir verði keppt í nokkrum styrkleikaflokkum. Hver sýning var býsna löng, 8 - 10 mínútur, og dómarar gáfu síðan umsögn um sýninguna. Mjög skemmtilegt, en langdregið, einkum ef sýningarnar héldu ekki athygli áhorfenda allan tímann, en það gerðu þær ekki allar. 5- 7 mínútur er yfirdrifin lengd.

Prógram Mette Mannseth var gott og vel útfært og hún hélt athygli áhorfenda allan tímann. Þrátt fyrir að sýningin væri ekki byggð upp á hefðbundnum gildum, fótaburði og hraða. Sérstaklega var skemmtilegt atriðið þar sem hún lét bæði reiðhestinn og taumhestinn fara afturfótasnúning samtímis. Prógram Þorsteins Björnssonar var líka skemmtilegt, þar sem hann reið með aðra hönd á taumi. En áhorfendur voru ekki alltaf vissir um hvað hann var að gera og hesturinn var oftast bundinn á tölti og ekki glæsilegur. Það besta við atriðið var að þar kom í ljós góður reiðmaður, sem ef til vill hefur ekki náð að sýna sitt besta vegna þess að hann hefur ekki haft yfir að ráða hesti sem lyftir "nægilega" mikið.

Áberandi var hve knapar lögðu sig fram um að viðhafa létt taumhald og leggja meira upp úr samspili og mýkt, heldur en fótaburði og hraða. Reyndar svo mikið að segja má að skilaboð kepppninnar hafi verið: Flottir hestar eru illa séðir. Enginn verulega flottur hestur tók þátt í keppninni, eða var að minnsta kosti ekki sýndur þannig. Það hefði verið klókt af aðstandendum keppninnar að tryggja að til leiks mættu alla vega tveir framúrskarandi flottir gæðingar, riðnir með grunngildin að leiðarljósi, en með fegurð, fasi og fótaburði. Slík pör eru til, og þeim myndi fjölga ef réttur vettvangur skapaðist.

Reyndar má segja að ákveðin feimni við fótaburð hafi litað flest atriði afmælishátíðarinnar. Sem er eðlilegt. Enginn vill láta góma sig sem "tætara" á hátíð samspils og sanngirni. En það segir okkur líka þá sögu að margir, ef ekki flestir, tengja saman fótaburð og mikinn "taumstuðning". Eða eins og Walter Feldamann orðaði það svo skemmtilega í viðtali: Íslenski hesturinn þarf nasamúl af því að hann krefst oft á tíðum "mikillar taumavinnu".

Hestamennska FT er gott innlegg og vonandi góð byrjun á "endurmenntun" hestamanna. Og þá ekki síst hestadómara, sem eru flestir fastir í þeim fasa að gefa hærra fyrir náð markmið (fótaburð og hraða), heldur en góða reiðmennsku, jafnvægi og samspil.