miðvikudagur, 19. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestamenn í lobbýisma

Jens Einarsson
14. desember 2009 kl. 09:29

Staðarval fyrir LM2012 á föstudag

Ákvörðun um staðarval fyrir Landsmót hestamanna 2012 verður tekin á fundi LH á föstudaginn. Tveir aðilar sækja um mótið: Rangárbakkar ehf. fyrir Gaddstaðaflatir við Hellu, og Fákur í Reykjavík fyrir svæði sitt í Víðidal.

Mikill lobbýismi er í gangi innan hestamannahreyfingarinnar vegna þessa. Geysismenn á Rangárvöllum töldu að staðarval vegna Landsmóta hestamanna væri komið í fastan farveg, einn staður fyrir norðan og annar fyrir sunnan. Segja þeir að uppbygging á Gaddstaðaflötum hafi verið miðuð við það. Nú sé hins vegar verið að kippa fótunum undan Rangárbökkum, sem skulda 40 milljónir eftir síðasta Landsmót 2008.

Fákur verður 90 ára 2012. Mörgum þykir við hæfi að þetta elsta og stærsta hestamannafélag landsins haldi upp á afmælið með stæl. Landsmót var haldið í Víðidal árið 2000. Mótssvæðið býður upp á ýmsa kosti, meðal annars að geta hýst öll keppnishross á mótssvæðinu. Samt sem áður komu upp ýmsir vankantar á svæðinu. Fákur hefur þegar lagt fram uppkast að breytingum á skipulagi þess og ljóst að þær munu kosta verulegar fjárhæðir. Marga tugi milljóna.

Ljóst er að miklir hagsmunir eru í húfi og sýnist sitt hverjum um hvar sé best og skynsamlegast að halda Landsmót. Vegur þar þungt það sjónarmið að Landsmót eigi að vera rómantísk útihátíð í sveitinni. Niðurstöðu er að vænta um næstu helgi.