miðvikudagur, 16. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestaflensan og haustið

21. júlí 2010 kl. 20:42

Hestaflensan og haustið

Eiðfaxi hefur heyrt á tali fólks að flensan sé enn þá ofarlega í huga þeirra sem eiga og halda hross.Þó nú sé úti sumar og sól þá hugsa margir til þess hvað haustið ber í skauti sér. Í frétt í Morgunblaðinu um síðustu helgi var vitnað í Sigríði Björnsdóttur um að sum hross séu að fá veikina í annað sinn og hluti af stofninum virðist ekki mynda mótefni gagnvart bakteríusýkingunni.

Við slógum á þráðinn til Sigríðar til að fá ráðleggingar um hestahald í haust og hvort hún teldi líkur á að sýkingin tæki sig upp af meiri þunga í haust en verið hefur í sumar.
Sigríður sagðist síður eiga von á alvarlegum veikindum í útigangshrossum í haust, það væri mikið minna smitefni í gangi núna heldur en í vor og það væri á undanhaldi.  Beint smit væri öflugasta smitleiðin en þegar minna smitefni væri í gangi væru minni líkur á óbeinu smiti.
Veik hross eru helsta uppspretta smits í umhverfinu og því er besta leiðin til þess minnka smitálagið að taka þau hross sem veikjast frá öðrum hrossum.
Undirbúningur hestaeiganda varðandi haustið ætti ekki síst að beinast að húsvistinni, þar væri smithættan mest, og menn þurfa að að geta tekið hross frá sem hugsanlega veikjast á húsi í haust og vetur. Þessi hross þurfa góðan aðbúnað og fóðrun segir Sigríður og sér helst fyrir sér að þau verði haldin úti á meðan þau eru að jafna sig. Hún hvetur ennfremur til meðhöndlunar á þeim hrossum sem enn eru veik enda komin góð reynsla á að gefa þeim penicillin.
Aukið eftirlit með stóðum og hrossahópum er engu að síður nauðsynlegt og tryggja þarf góðan aðgang að vatni, fóðri og skjóli. Mikilvægt er að hrossin fari ekki fara of grönn inní haustið.
Sigríður vildi að lokum benda hestamönnum á að fylgjast með ráðleggingum sem væri að finna inná vef Matvælastofnunar, mast.is