þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hestadagar formlega settir

29. mars 2012 kl. 19:53

Hestadagar formlega settir

Hestadagar í Reykjavík voru settir í kvöld á formlegri opnun stærri verslunar Líflands í Lynghálsi í kvöld.

Haraldur Þórarinsson, formaður LH, setti Hestadaga í Reykjavík formlega að viðstöddum þónokkrum fjölda gesta og aðstandenda hátíðarinnar í kvöld. Hestadagar eru nú haldnir í annað sinn en að henni standa, auk Landssambandsins, Höfuðborgarstofa, Icelandair group, landkynningarátakið Inspire by Iceland og sex hestamannafélög á höfuðborgarsvæðinu. Dagskrá Hestadaga er með fjölbreyttasta móti, gestir hátíðarinnar og Reykvíkingar allir geta kynnt sér hestinn gegnum sýningar, mót, fyrirlestra og ýmissa uppákoma. Hápunktur hátíðarinnar er á skrúðreið á laugardaginnn kl. 13 en þá munu 150 hestar og knapar halda prúðbúin upp Laugaveg, í miðbæ borgarinnar.

Á morgun verður farin ferð á ræktunarbú á Suðurlandi. Áhugasamir geta þá kynnt sér starfsemi Vesturkots og Auðsholtshjáleigu, sem var kjörið ræktunarbús ársins 2011. Ferðin endar á Meistaradeildarmóti í Ölfushöll, en þá fer fram hörkuspennandi lokamót þar sem nokkrir af færustu knöpum landsins etja kappi í fimmgangskeppni á glæsilegum gæðingum.

Þeir sem slást vilja í för Hestadaga um suðurland geta skráð sig á netfangið hilda@landsmot.is en haldið verður af stað frá bænum kl. 11.

Vert er að hvetja hestamenn til að kynna sér fjölbreytta dagskrá Hestadaga en hana má nálgast hér.

Samhliða setningu Hestadaga opnaði Lífland stærri verslun að Lynghálsi, bauð gestum upp á veitingar og tískusýningu þar sem nokkrir valinkunnir hestamenn brugðu undir sig betri fætinum og fóru í hlutverk tískumódela. Sérstakur gestur opnunarinnar var stóðhesturinn Þristur frá Feti sem lét sér fátt um finnast tilburði á tískupöllum og þurfti lítið að beita sér til að vekja verðskuldaða athygli forvitinna gesta.

Meðfylgjandi eru myndir frá opnuninni.