föstudagur, 15. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

"Hélt að hún væri að láta fylinu"

odinn@eidfaxi.is
10. mars 2014 kl. 19:33

Hryssan sem nídd var hefur nú fengið meðhöndlun dýralæknis og mun ná sér að fullu.

Eigandi hryssunnar sem nídd var um helgina.

“Ég hélt að hún væri að láta fylinu” segir Grétar Hallur eigandi bleikálóttu hryssunnar sem talið er að níðingur hafi skorið með eggvopni um helgina. Í samtali við Eiðfaxa sagði hann hryssuna spaka en hún sé ótamin og fylfull við gæðinginn Nóa frá Stóra-Hofi.

Hryssan var ásamt öðrum hrossum heim við og telur Grétar gerandan líklega hafa framið verknaðin í skjóli nætur. "Hrossin eru nánast hérna við eldhúsgluggan og mjög auðvelt að hafa eftirlit með þeim" segir Grétar og bætir við að áverkinn sé þannig að útilokað sé að hryssan hafi skaða sig sjálf.

“Þegar ég leit til hryssnanna um helgina sá ég að það var blóð á læri hryssunnar og þar sem ég vissi að hún var fylfull var fósturlát það fyrsta sem mér datt í hug. Við nánari skoðun sá ég að það var skurður á sköpum hryssunnar” sagði Grétar en bætti við að ef hann hefði ekki vitað um þau mál sem upp komu árið 2011 hefði hann líklega ekki gert meira með þetta. Í framhaldinu tilkynnti hann málið til lögreglu og Matvælastofnunar sem nú rannsaka málið.

“Sárið á hryssunni er í sjálfum sér ekki stóra málið enda mun hún ná sér fljótt af því, en hitt er mun alvarlegra að menn gangi um og framkvæmi verknað sem þennan” segir Grétar og segir alla sem hann hafi heyrt í sammála um það að mikilvægt sé að koma upp um þann sem brýtur svona á dýrum.

Grétar vill koma þeim tilmælum til hryssueiganda að þeir hugi að hryssum sínum og þá sér í lagi spökum hryssum sem auðvelt er að skaða líkt og þá sem hér um ræðir.

Fjallað var um þetta mál á vefnum mbl.is í dag.