fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Helmings líkur á Landsmóti

20. maí 2010 kl. 10:02

Ekkert kerfisbundið eftirlit

Fulltrúar hagsmunaaðila í hestamennsku hafa verið boðaðir til fundar í Landbúnaðarráðuneytinu á morgun, föstudag, að frumkvæði ráðuneytisins. Þar verður farið yfir þá alvarlegu stöðu sem uppi er vegna hestapestarinnar sem nú hefur lamað alla hestamennsku í landinu.

Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda, segir að farnar séu að renna tvær grímur á marga varðandi Landsmótið. Hann telur helmings líkur á að það verði haldið.

„Ég hef verið að þreifa á mínu fólki og haft samband við nokkuð mörg bú og tamningastöðvar. Það liggur öll starfssemi niðri eins og er og menn eru almennt sammála um að það sé mjög erfitt að átta sig á hvernig pestin hagar sér. Hvort hross eru veik eða ekki. Staðan er tvísýn í augnablikinu og ég tel að séu helmings líkur á því hvort Landsmót verður haldið eða ekki. Það er einfaldlega sá veruleiki sem blasir við og það verður að taka ákvörðun fyrr en seinna. Ég held að það sé alla vega alveg ljóst að það verða töluverð afföll á hrossum inn á Landsmót ef að verður haldið. Vonandi breytast forsendur okkur í hag á næstu dögum og vikum,“ segir Kristinn Guðnason.

Ábyrgðin er knapanna

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, segir að enn sé ekki búið að greina hvaða veirusýkingu getur verið um að ræða. Sambærileg einkenni komi af og til upp í hrossum erlendis án þess að valda faraldri og þau séu ekki talin alvarleg. Hér hafi þetta hins vegar valdið faraldri.

„Almennt séð þá er þetta ekki alvarleg veiki. Það er fjöldi hrossa búinn að fara í gegnum hana sem hafa náð fullum bata og sýna engin eftirköst. Hrossin fá alla jafna ekki hita og sýkingin fer ekki ofan í lungu. Einkennin eru hins vegar svo væg að það er ekki hægt að útiloka að hross sem hefur tekið veikina, eða hefur ekki að fullu náð sér, komi til sýninga.

En það er á ábyrgð knapanna að meta hvort hrossin eru veik eða ekki. Það eru þeir sem finna það fyrst og fremst hvort hrossin eru lin eða fullfrísk. Það er hins vegar rík ástæða til að fara varlega, eins og ég hef ítrekað ráðlagt. Það verður að meta hvert tilfelli fyrir sig. Ég met stöðuna ekki þannig að ástandið sé svo alvarlegt að það sé ástæða til að setja á allsherjar sýninga- og mótabann. Enda hefði það þá verið gert fyrir nokkru síðan. “

Ekkert kerfisbundið eftirlit

Haraldur Þórarinsson, formaður LH og stjórnarformaður Landsmóts ehf., segir að til umrædds fundar hafi verið boðað til að reyna að ná heildaryfirsýn á stöðuna. Svo virðist sem enginn hafi þá yfirsýn.

„Það kemur mér á óvart að Matvælastofnun [dýralæknir hrossadjúkdóma] skuli ekki vera með markvisst stöðumat á pestinni frá viku til viku. Það virðist ekki vera neitt kerfisbundið eftirlit í gangi svo hægt sé bregðast við með viðeigandi hætti ef þörf krefði. Þótt einkenni pestarinn séu væg þá er alvarleiki hennar sá hvað það tekur hana langan tíma á hverjum stað að fara í gegn. Greinin er lömuð og ég hefði viljað sjá markvissari viðbrögð opinberra aðila í málinu.

Það er rétt að samkvæmt reglum eru hrossin á ábyrgð knapanna, hvort þau eru heilbrigð þegar þau mæta til dóms eða keppni. En þegar um faraldur sem færustu sérfræðingar hafa ekki náð að greina eða kortleggja, þá finnst mér það vera á ábyrgð opinberra aðila að gefa út mat á því hvort stætt sé á að halda úti reglubundinni starfssemi í greininni eða ekki. Þangað til munum við halda okkar striki varðandi Landsmótið,“ segir Haraldur.