laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Heljar á sínu fyrsta íþróttamóti í fimmgangi - viðtal

9. mars 2011 kl. 21:55

Heljar á sínu fyrsta íþróttamóti í fimmgangi - viðtal

Vignir Siggeirsson mun mæta til leiks með glæsihestinn Heljar frá Hemlu II í fimmgangskeppni Meistaradeildarinnar á morgun.

Heljar er stór og myndarlegur gæðingur úr ræktun Vignis, undan Óskadís frá Hafnafirði og Andvarasyninum Gný frá Stokkseyri. Vignir og Heljar sigruðu eftirminnilega stórmót Geysis á Gaddstaðaflötum í fyrra með einkunnina 8,88, og ætla þeir sér stóra hluti á Landsmótinu í sumar.

Eiðfaxi sló á þráðinn til Vignis og vildi vita hvernig hann ætlaði sér að hemja Heljar inn í Ölfushöllinni á morgun.

Hvernig hefur þú undirbúið þig fyrir mótið á morgun?

“Ég hef byggt upp nokkuð hefðbundna þjálfun, og hef svo verið að taka stöðuna á Heljari en ég tel að hann sé í um 40% getu núna. Ég stefni hins vegar með hann í toppformi á Landsmót og nota fimmgangskeppnina á morgun sem part af þjálfuninni fyrir Landsmótið í sumar.”

Hvernig er að samræma þjálfun fyrir ólík keppnisform eins og innanhúsmót Meistaradeildar og gæðingakeppni Landsmótsins?

“Hluti af þjálfuninni fer fram inni í reiðhöll svo hestarnir eiga að kunna að sýna sitt besta þar. En ég renn blint í sjóinn á morgun þar sem þetta er í fyrsta sinn sem Heljar keppir í íþróttamóti í fimmgangi. Að keppa inni í höll hefur óneitanlega áhrif. Maður gerir meiri kröfur til hestanna undir þessum kringumstæðum enda kemur oft í ljós hversu sterkt geðslag hesturinn hefur í þess háttar keppnum.”

Hvernig líst þér á keppinautanna?

“Er búið að birta ráslista? Ég hef ekki kíkt á þá. En Meistaradeildin er skemmtileg mótaröð og keppninnar hafa verið virkilega harðar. Ég býst því ekki við öðru en keppnin á morgun verði verulega spennandi.”

Eiðfaxi heimsótti Vignir að Hemlu sl. vetur og tók þá þetta skemmtilega myndband af þeim félögum.

Meistaradeildarvefur Eiðfaxa