fimmtudagur, 14. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Heimsókn í Litlu-Brekku og Garðshorn

14. apríl 2015 kl. 11:35

Laxnes Lambanesi

Nóg um að vera í nærsveitum Akureyrar um næstu helgi.

Helgin 17.-19. apríl verður hlaðin hestatengdum viðburðum á Akureyri og í nærsveitum að er fram kemur í tilkynningu frá Létti. Á föstudagskvöldinu verður stórsýningin Fákar og fjör. Á laugardeginum verða ræktunarbú heimsótt, léttur kvöldverður og að lokum hin magnaða Stóðhestaveisla.

Tvö af þeim ræktunarbúum er Litla-Brekka og Garðshorn á Þelamörk  (Lambanes).

Hrossaræktarbúið Litla-Brekka er í Hörgársveit í Eyjafirði um 15 km frá Akureyri. Þar búa Vignir Sigurðsson og Jónína Garðarsdóttir ásamt dætrum sínum Katrínu, Freyju og Bjarneyju. Á jörðinn býr einnig faðir Jónínu, Garðar Lárusson.
Vignir og Jónína fluttu að Litlu-Brekku árið 1999 og hófu fljótlega að halda nokkrum hryssum en undanfarin ár hafa þau fengið 4-7 folöld á ári.  Ræktunarhryssurnar eru nú um 7 talsins og þar af eru 5 með fyrstu verðlaun.  Markmiðið er að rækta léttbyggð, skrefmikil ganghross með trausta lund.
Hrossin eru að mestu leyti tamin og þjálfuð heima við en stundum eru hrossin send af bæ til “frekara náms” eða sýningar. Heimilisfólkið hefur gaman af að taka þátt í öllum hliðum hestamennskunnar ss. almennum útreiðum, ferðalögum, ræktun og keppnismennsku.
Af þekktum keppnishrossum sem komið hafa frá búinu má nefna hinn frábæra alhliða gæðing Spóa frá Litlu-Brekku og fasmikla stóðhestinn Pistil frá Litlu-Brekku.
Heimasíða búsins er www.litlabrekka.is

 Á Garðshorni á Þelamörk búa Agnar Þór Magnússon & Birna Tryggvadóttir ásamt börnum (Ylvu Sól & Dag Snæ). Búið er staðsett í um 20 km. fjarlægð frá Akureyri. Síðastliðið sumar fluttu Agnar og Birna í Hörgárdalinn og er nú ræktun þeirra kennd við Garðshorn á Þelamörk en ekki Lambanes eins og verið hefur undanfarin ár. Á Garðshorni fæðast 2-5 folöld á ári og er markmiðið í ræktuninni m.a. að rækta geðgóð, falleg, ganghrein rýmishross með fótaburði. Árið 2013 var búið (Lambanes) tilnefnt sem eitt af 10 bestu ræktunarbúum ársins, ári seinna búið valið Ræktunarbú ársins. Á bak við þann árangur standa fimm hross sem sýnd voru frá búinu á árinu (meðaleinkun 5,4 ár). Af þeim búum sem tilnefnd voru var ræktun þeirra Birnu og Agnars með hæstu meðaleinkunn sýndra hrossa (8,27) og hæstu meðaleinkun fyrir hæfileika sýndra hrossa (8,40). Af þeim þrem efstu sem sýnd voru má þá efstan nefna Hersir frá Lambanesi sem hlaut 8,83 fyrir hæfileika og 8,57 í aðaleinkunn. Annar efsti hesturinn frá búinu var Laxnes frá Lambanesi með 8,77 fyrir hæfileika og 8,46 í aðaleinkunn. Þriðja efsta hrossið var Aragon frá Lambanesi sem sýndur var í Þýskalandi hjá nýjum eiganda sýnum, en hann hlaut 8,55 fyrir hæfileika, 8,28 í aðaleinkunn. Auk ræktunarinnar er á Garðshorni einnig boðið uppá á tamningu og þjálfun á hrossum, sýningu á kynbóta- og keppnishrossum, hross til sölu og reiðkennslu.
Heimasíða: www.sporthestar.com
Facebooksíða:www.facebook.com/sporthestar

Miðasala á sýningarnar er hafin Fákasporti og Líflandi, Akureyri.