laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Heimsmeistara-knapar máta sig á World-Cup

28. febrúar 2011 kl. 11:07

Julie Christiansen og Örn frá Efri-Gegnishólum á HM2009 í Sviss.

Jóhann Skúlason á toppnum með Hnokka frá Fellskoti

Línur fyrir HM2011 eru byrjaðar að skýrast eftir World Cup mótið í Danmörku, sem haldið var um helgina. Þar keppa jafnan knapar frá hinum ýmsu löndum FEIF. Úrslit voru að mestu eftir uppskrift, en þó komust á toppin ný hross, sem ekki hafa áður keppt ytra, svo sem Losti frá Strandarhjáleigu, sem varð annar í tölti hjá Nils-Christian Larsen.

Flestir bjuggust við að Jóhann Skúlason, Íslandi, héldi áskrift sinni að fyrsta sætinu í tölti. Það gekk eftir og varð hann langefstur á stóðhestinum Hnokka frá Fellskoti með 8,67 í einkunn. Hann var hins vegar eini íslenski keppandinn með topphest á World Cup mótinu. Aðrir íslenskir knapar í toppbarátunni keppa fyrir önnur lönd. Í þriðja sæti í tölti varð hin danska Anne Balslev á Sæla frá Holtsmúla, Orrasyni frá Þúfu, Anne hefur keppt á Sæla frá árinu 2007 og verið í fremstu röð á mótum á meginlandinu. Hesturinn var þó ekki í keppni 2009, og þar af leiðandi ekki á HM2009,  og hefur sennilega verið forfallaður. Anne og Sæli eru hins vegar líkleg í toppbaráttuna á HM2011.

Losti frá Strandarhjáleigu er greinilega að finna taktinn undir hnakk hjá Nils-Christian, fékk 8,28 og annað sætið eins og áður sagði. Hesturinn hefur í nokkur ár verið alveg við það að "meikaða", lengst af hjá Jóni Páli Sveinssyni og í fyrra hjá Þorvaldi Árna Þorvaldssyni, en aldrei náð rækilega í gegn. Hesturinn er í WorldFeng skráður í eigu Hjarðartúns ehf., sem er íslenskt fyrirtæki. Losti er í föðurætt af B línunni á Hólum, undan Bikar frá Hólum, sem er sammæðra Blæju frá Hólum, fyrrum Íslands- og Landsmótsmeistara i tölti.

Örn frá Efri-Gegnishólum, sá er varð efstur í fimmgangi á World Cup undir hnakk hjá Julie Christiansen, er heldur ekki nægilega öruggur. Þurfti að fara lengri leiðina, upp úr B úrslitum, vegna mistaka í forkeppni. Sem er ekki nógu faglegt, þótt mörgum finnist slíkt brölt mikil hetjudáð. Julie er hins vegar flinkur og metnaðarfullur knapi og óhætt að reikna með þeim í danska landsliðið aftur (voru á HM2009 í Sviss) ef ekkert óvænt kemur upp á. Örn er undan Aroni frá Strandarhöfði og Hrönn frá Efri-Gegnishólum, Hrannarsdóttur frá Höskuldsstöðum.

Athygli vekur að tveir keppendur voru fyrir ofan sænsk/íslenska ofurknapann Magnús Skúlason og Hraunar frá Efri-Rauðalæk í fimmgangi, sem segir nokkuð um styrkleikann á fimmgangsvængnum: Julie Christiansen á Erni og Josefin Birkebro, Svíþjóð, á Kjarna frá Wallberg. Kjarni er grár, þýskfæddur hestur, út af Kolskeggi frá Ásmundarstöðum og Feyki frá Hafsteinsstöðum. Josefin og Kjarni kepptu á HM2009 í Sviss en náðu ekki umtalsverðum árangri þar. Þau virðast nú á uppleið. Agnar Snorri Stefánsson, Íslandi, var í fjórða sæti á Rómi frá Búðardal, sem er góður árangur. Rómur er hins vegar búinn að vera lengi í keppni án þess að ná rækilega í gegn og það kæmi á óvart ef hann yrði fyrir vali í íslenska landsliðið. En Agnar Snorri er snjall og vissara að útiloka ekki neitt fyrr en lengra líður á keppnistímabilið.

Fjórgangsvængurinn er spennandi. Nils-Christian Larsen, Noregi, hafði nokkra yfirburði á Rey frá Dalbæ. Varð efstur með 8,03, en Lucia Koch, Austurríki, á Jarli frá  Miðkrika í öðru sæti með 7,77. Bæði pörin kepptu í A úrslitum á HM2009. Jóhann Skúlason varð þriðji á Braga frá Kópavogi, sem fór utan í fyrra, með 7,63 í einkunn. Hestur sem hefði vel mátt verða fyrir valinu hjá metnaðarfullum reiðmönnum hér heima. Hann er þó varla á leið á HM2011 nema annar knapi taki við honum, því Jóhann hefur gefið út að hann stefni með Hnokka í töltið á heimsmeistaramótinu. Unn Krogen, Noregi, lét vita af sér, varð fjórða í fjórgangi á Tristan frá Jarde með 7,40 í einkunn.

Úrslit frá World Cup.