þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Heilsað upp á Braga litla

23. október 2013 kl. 13:32

Bragi litli sefur á eldhúsgólfinu

Á köldu rigningarkvöldi fannst móðurlaust folald, skjálfandi, blautt og hrakið.

Sagan af Braga birtist í Júníblaði Eiðfaxa í fyrra og vakti mikla athygli, þó sérstaklega fyrir skemmtilegt myndband sem sýndi hversu fallegt samband milli hans og heimasætunnar myndaðist.

Bragi er nú orðin stærri og loðnari og unir sér vel úti í eyjunni sinni.  Styggðin er ekki að angra hann, það virðist sem sólahringur í mannahöndum hafi haft svo mikil áhrif á litla skinnið að hann hræðist hvorki mann og annan þrátt fyrir að hafa haft lítil samskipti við fólk eftir að hann endurheimti móður sína aftur.

 

Hér koma  nýjar myndir af Braga ásamt myndbandinu góða og örlagasögu hans.

 

 

 

 

 

 

 

Örlagasaga Braga litla

 

Á köldu rigningarkvöldi í maí fannst á Mýrunum móðurlaust folald, skjálfandi, blautt og hrakið. Lífslíkurnar voru hverfandi í fyrstu, en með góðu atlæti var Braga litla bjargað. Í villtu stóði í Hjörsey í Faxaflóa skimaði móðirin óróleg eftir afkvæminu sem hafði orðið viðskila við hana í illviðrinu. Hér er sögð óvenjuleg saga folalds sem fór í bíltúr, svaf á eldhúsgólfi og tók ástfóstri við fjögurra ára heimasætu á bænum...

 

Þriðja stærsta eyja Íslands heitir Hjörsey.  Náttúrufegurðin er mikil, gylltir sandar, skrautlegt fuglalíf og einstakt stóð sem lifir úti í eyjunni allan ársins hring.  Folöldin læra af mæðrum sínum að éta söl í fjörunni og bjarga sér vel, enda koma þau yfirleitt alltaf væn undan vetri. Stóðið fylgir sjávarföllunum þar sem það hefur tvær eyjar sem hægt er að ganga á milli á háfjöru, einnig getur það gengið á fast land.  Þarna eru oft miklir sundgarpar á ferð, folöldin læra snemma að kljást við sjóinn, enda kippa merarnar sér ekki upp við það að synda yfir einn ál eða svo til að komast sína leið.

 

Á bænum Álftárósi á Mýrum, sem liggur nálægt Hjörsey, höfðum við bændur og búalið nýlokið mjöltum, óvenju snemma vegna þess að framundan var Evróvision söngvakeppnin mikla.  Heimilismenn voru orðnir ansi spenntir að njóta kvöldsins með popp og kók og kannski einn kaldan á hliðarlínunni. Hvetja áfram hetjurnar okkar, vonast til þess að Jónsi og Gréta yrðu landi og þjóð til sóma.   Einstaklega huggulegt kvöld framundan, allir vatnsgreiddir, komnir í jogginggallann, tilbúnir í slaginn.   

 

Þá hringir síminn...

 

Erindið var frekar dapurlegt.  Móðurlaust folald hafði fundist í landi rétt fyrir utan Hjörsey.  Þar var engan hest að sjá svo langt sem augað eygði.  Það var háflóð og enginn vissi hvað orðið hefði af móðurinni, sem var talin vera úr Hjörseyjarstóðinu.  Eitt var víst að hún var ekki í landi eða neins staðar nálægt litla greyinu.  

 

Gall þá í sjónvarpinu...

 

And when the golden sun arises far across the sea

The dawn will break as darkness fades forever we’ll be free....

 She mourns beneath the moonlit sky

Remembering when they said goodbye

Where’s the one he used to know
It seems so long ago.......

 

Vindurinn hvein og rigningin glumdi á bílrúðunni þegar við lögðum af stað í björgunarleiðangur.

 

Þetta var kvíðablandin ferð, það vita flestir að vandasamt er að ala upp folald. Við vonuðum þó að það hefði á einhverjum tímapunkti komist á spena og fengið broddmjólkina hjá móður sinni. Þá er sigurinn að hálfu unninn enda er broddmjólkin nauðsynleg fyrir ónæmiskerfið.

 

Eftir hálftíma keyrslu í rigningu og roki stigum við út úr bílnum og þarna blasti hann við okkur. Skjálfandi, blautur, þreyttur og svangur. Á einhvern hátt hafði hann komist inn í sumarbústaðargirðingu og ekki komist út aftur.  Hann var sennilega tæpast þriggja daga gamall. Við vissum ekki hversu lengi hann hafði verið þarna, orðinn ansi þrekaður og máttfarinn.

 

Bóndinn heyrðist muldra í lágum hljóðum að best væri bara að setja blý í þetta grey,  en þagði fljótt þar sem að hann fékk ákaflega illskeytt augnaráð frá kvenpeningnum. Ræfilslegt folaldið átti nú kannski mömmu ennþá einhvers staðar, svo væri nú aldeilis hægt að venja hann undir aðra meri.  Honum var dröslað inn í bíl og heimleiðis var haldið.

 

Eftir að heim var komið fékk hann vænan sopa af mjólkurblöndu og hresstist þá ansi mikið við. Þar sem að hann var svo lítill, sætur og móðurlaus fékk hann að rölta um húsið við mikla gleði fjögurra ára heimasætunnar sem sýndi honum leikfangabílana sína og knúsaði hann fram og til baka.   Hann fékk líka að horfa á Evróvision en athyglin beindist óneitanlega meira að þessum óvænta gesti. Hann var nefndur Bragi og var óumdeilanlega sigurvegari kvöldsins.

 

Það fyrsta sem birtist augum fjölskyldunnar morguninn eftir var heimasætan á harðaspretti út á túni með Braga skoppandi á eftir sér. Sólin skein og hann elti hana út hvert sem hún fór, stoppaði þegar hún stoppaði, hljóp hring í kringum hana, skvetti sér, þau bæði alveg að rifna af monti.  Bragi heillaði alla upp úr skónum, meira segja bóndann sem klappaði honum í laumi.  

 

Þegar leið á daginn bárust gleðifréttir. Sést hafði til Hjörseyjarstóðsins og þar á meðal var meri ein bleikálótt sem var líkleg til þess að vera móðirin.  Við brunuðum af stað til að ná fjörunni, með Braga litla í skottinu.  Við keyrðum út að eyjunni og þar var stóðið í öllum sínum ljóma.  Bragi litli rölti örlítið óstyrkum fótum á eftir bóndanum, þegar sú bleikálótta tók sig út úr stóðinu og kom askvaðandi á móti þeim.  Móðirin var fundin.  Þarna urðu miklir fagnaðarfundir. Þegar Bragi litli fékk sér svo mjólkursopa hjá mömmu sinni var takmarkinu náð. Við fylgdumast með þeim í svolítinn tíma og það síðasta sem við sáum af Braga var þegar hann skellti sér á sund með móður sinni á leið í græna haga.