mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Heildrænt hugað að heilsu hestanna-

16. apríl 2010 kl. 14:55

Heildrænt hugað að heilsu hestanna-

Þjóðverjinn August Hofmann er mikill Íslandsvinur og heimsækir landið reglulega. Hann er ræktandi, reiðkennari, sjúkraþjálfari og osteópati, ef nota má það orð. August ræktaði meðal annars hinn þrefalda heimsmeistara Tý vom Rappenhof.

Hann er nú staddur hér á landi til að fræða íslenska hestamenn og þjálfara um hreyfingafræði hestsins og hvernig hægt er að bæta stoðkerfið, jafnvægið og þar með samræmi hreyfinga hestsins með réttri meðhöndlun.

Ferlið sem August fer í gegnum með þá hesta og knapa sem hann meðhöndlar, er þannig að hann fylgist með hestinum í lónseringu, frjálsum og með knapa á baki. Hann fylgist náið með hreyfingum hestsins, spyr út í uppruna, fóðrun og fleira og þreifar á hestinum. 30 ára reynsla hans gerir honum kleift að sjá nokkuð út ástand hestsins, hvort hann er stífur einhvers staðar, hvort hann finni til einhvers staðar og þar fram eftir götunum. Í framhaldinu leggur hann línurnar við að laga það sem finnst að, með þjálfara eða eiganda hestsins. Oft hnykkir hann og teygir á hestunum og einnig spyr hann knapa mikið út úr varðandi viðbrögð hestsins við ýmsum ábendingum.

Í kvöld verður August með fyrirlestur og sýnikennslu á Háskólanum á Hólum og miðlar reynslu sinni í starfi þar.

Þetta er sannarlega áhugavert og í næsta tölublaði Eiðfaxa munum við kafa dýpra ofan í teoríu Augustar Hofmanns.