föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Níu hryssur hljóta heiðursverðlaun

6. október 2016 kl. 09:02

hersir frá

Þrjár hryssur frá Baldvin Kr. Baldvinssyni í Torfunesi hljóta heiðursverðlaun í ár.

Hið alþjóðlega kynbótamat fyrir íslensk hross var reiknað og uppfært nú í lok september. Hvað afkvæmahryssurnar varðar kom í ljós að níu hryssur hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í ár en lágmörk til þeirra verðlauna eru að að minnsta kosti fimm dæmd afkvæmi og 116 stig í kynbótamati aðaleinkunnar. Þessar hryssur eru:

 

Það sem vekur athygli er að þrjár hryssur frá Baldvin Kr. Baldvinssyni í Torfunesi hljóta heiðursverðlaun í ár, þær Röst, Bylgja og Hrund og er það líklega einsdæmi að svo margar hryssur frá sama búinu hljóti þessa viðurkenningu á sama árinu. Það er frábær ræktunarárangur en Röst stendur efst til heiðursverðlauna og hlýtur því Glettubikarinn. Röst er undan Hersi frá Oddhóli og Bylgju í Torfunesi. Undan Röst hafa komið 6 afkvæmi til dóms og öll í fyrstu verðlaun, nú síðast Grani frá Torfunesi og var hann sýndur í fjögurra vetra flokki stóðhesta á Landsmóti í ár. Næst í röð kemur Leista frá Lynghóli, undan Hróðri frá Refsstöðum og Rispu frá Eystri-Hól. Ræktendur eru Árni Þorkelsson og Geir Ingi Geirsson. Leista stóð efst í flokki fjögurra vetra hryssna á Landsmóti 2006 og er eftirminnileg fyrir fínleika og fótaburð. Leista hefur skilað fimm hrossum í dóm og þar af þremur í fyrstu verðlaun. Þriðja í röð kemur Gletta frá Ytra-Vallholti, undan Kveik frá Miðsitju og Kolfinnu frá Ytra-Vallholti. Gletta var mikill gæðingur og mýktartöltari sjálf, enda tölti á henni hvert hár og hefur hún gefið mýkt í ganglagi og geðslagi til afkvæma sinna. Ræktandi hennar er Harpa Hafsteinsdóttir en eigandi er Vallholt ehf.

Fjórða í röð er Bylgja frá Torfunesi, undan Baldri frá Bakka og Kviku frá Rangá. Þekktustu afkvæmi hennar eru stóðhesturinn Blær frá Torfunesi, Þingey frá Torfunesi sem hlaut tíu fyrir skeið á Landsmóti 2014 og Landsmótssigurvegarinn frá Landsmóti í ár í flokki fjögurra vetra hryssna; Stefna frá Torfunesi. Næst í röð kemur Gnótt frá Dallandi en hún er undan Orra frá Þúfu og Grósku frá Sauðárkróki. Gnótt hefur skilað fimm hrossum í dóm og þar af hafa fjögur farið í fyrstu verðlaun. Gnótt er framfalleg og myndarleg hryssa og stendur sérstaklega vel hvað sköpulag varðar í kynbótamatinu og er þar með 133 stig. Ræktandi hennar er Þórdís Sigurðardóttir. Sjötta í röð er Hrund frá Torfunesi, undan Safír frá Viðvík og Virðingu frá Flugumýri. Ræktandi hennar er Baldvin í Torfunesi en hún hefur verið alla tíð í ræktun hjá Gunnari Yngvasyni sem kennir hross sín við Breiðholt í Garðabæ. Hrund er gæðingamóðir og hefur skilað níu hrossum í dóm og þar af átta í fyrstu verðlaun. Má þar nefna Orrabörnin Dögg og Byl frá Breiðholti en Dögg stóð efst í flokki fimm vetra hryssna á Landsmóti 2006. Einnig eru undan henni Hrynjandasonurinn Straumur og Þristssonurinn Fjarki sem voru hátt dæmdir sjálfir og eru báðir byrjaðir að skila góðum hrossum til dóms.

Sjöunda í röð er Gusta frá Litla-Kambi, undan Gusti frá Hóli og Bylgju frá Sturlureykjum 2, ræktandi hennar er Guðrún Jóhanna Eggerz en eigendur eru Sif Ólafsdóttir og Hjörleifur Jónsson. Gusta hefur skilað fimm hrossum í dóm, þar af fjórum í fyrstu verðlaun og má þarf nefna Bylgju frá Einhamri, stórgæðing undan Stála frá Kjarri og Gyrði frá Einhamri sem stóð sig vel á Landsmóti í sumar í fjögurra vetra flokki stóðhesta. Áttunda í röð er Elka frá Efri-Hrepp, undan Hersi frá Oddhóli og Stjörnu frá Efri-Hrepp. Elka var stórstíg og jafnvíg á allan gang og stóð til að mynda ofarlega í elsta flokki hryssna á Landsmóti 2006. Það eru því tvær dætur Hersis frá Oddhóli sem hljóta heiðursverðlaun í ár, þær Röst og Elka, sem er merkilegt miðað við skamma notkun hans á Íslandi. Níunda í röð er svo Blika frá Nýjabæ, undan Keili frá Miðsitju og Stiku frá Nýjabæ. Ræktandi hennar er Ólöf Guðbrandsdóttir í Nýjabæ en eigandi er Gunnar Egilsson. Á meðal afkvæma hennar er Mjölnir frá Hlemmiskeiði 3 sem er þegar búinn að skila 24 hrossum til dóms og hefði náð fyrstu verðlaunum fyrir afkvæmi í ár hefði hann verið á Íslandi og Bjarmi frá Bæ 2 sem fór í há fyrstu verðlaun í sumar.

Eins og sjá má er þetta myndarlegur hópur hryssna sem hlýtur heiðursverðlaun í ár og eru þær allar vel að viðurkenningunni komnar. Þessar heiðurshryssur verða allar verðlaunaðar á hinni árlegu Hrossaræktarráðstefnu fagráðs sem fer fram laugardaginn 5. nóvember og verður nánar auglýst síðar.