fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Haukur Tryggvason: ánægður með árangurinn, vinnan heldur áfram!

26. desember 2009 kl. 21:11

Haukur Tryggvason: ánægður með árangurinn, vinnan heldur áfram!

Lesendur þýsku vefsíðunnar www.isibless.de völdu Hauk Tryggvason knapa ársins 2009. Vefsíðan kallar Hauk "vingjarnlega víkinginn úr Svartaskógi". Í viðtali við Henning Drath, forsprakka vefsíðunnar, segir Haukur frá lífinu í Þýskalandi, talar um HM hestinn Baltasar og segir frá undirbúningi fyrir árið 2010.

isibless: Haukur, innilega til hamingju með árangurinn á árinu. Lesendur isibless þekktu vitanlega árangur þinn á mótum hér í Þýskalandi og síðan þekkja allir árangurinn frá HM í Sviss.

Haukur: Já, það gleður mig mjög að ég skuli hafa verið kosinn knapi ársins á isibless.de og mig langar að þakka lesendum þann heiður. Hér í Þýskalandi eru mjög margir góðir knapar og því komu úrslitin á óvart. Ég hafði ekki reiknað með að fá flest atkvæðin - kærar þakkir!

isibless: Stærstan hluta lífsins hefur þú búið á Íslandi. Hvað dró þig til Þýskalands og hvað kanntu best við í nýjum heimkynnum þínum hér?

Haukur: Ég kynntist frábærri stelpu í Reykjavík - Jóhönnu -, sem ég er nú hamingjusamlega giftur. Við vorum reyndar líka saman á Hólum en búum nú hér, litla fjölskyldan, í Svartaskóginum síðan 2005. Þetta eru æskuslóðir Jóhönnu og hérna lenti ég þess vegna.

Það er einfaldlega mjög fallegt hérna og rólegt og það kann ég vel að meta. Búgarðurinn okkar Freyelhof er aðeins nokkrar mínútur frá bænum Hinterzarten; en þann bæ þekkja einhverjir í tengslum við skíðastökk og aðrar vetraríþróttir. Hér erum við í ca. 1000m hæð yfir sjávarmáli og loftslagið er alveg frábært. Og það besta er; hér eru veturnir fallegir og sumrin líka. Þó er alltaf nokkuð langt að keyra á mótin eða FIZO kynbótasýningarnar. En á móti kemur að þegar heim er komið er maður komin í rólegheitin aftur. Við vinnum rólegu andrúmslofti hér en okkur líður oft eins og í fríi á þessum stað.

isibless: Hver var hápunkturinn í reiðmennskunni á þessu ári?

Haukur: Besti árangurinn var vitanlega að ná silfurverðlaunum í samanlögðum fimmgangsgreinum á HM. Ég er mjög stoltur af því. Í það heila er ég gríðarlega ánægður með þróun Baltasars á þessu ári. Við áttum held ég okkar besta mót á Þýska meistaramótinu. Þar gekk hreinlega allt upp, og þar hlutum við hæstu einkunnir okkar á þessu ári.

Maður verður að skoða heildarmyndina en þó ekki gleyma einstökum augnablikum og árangri. Svoleiðis árangur næst þegar allt gengur upp og dagsformið er frábært. Það er síðan auðvitað best að geta haldið ákveðnum standard á sýningum sínum og síðan að árangurinn stígi hærra og hærra. Þannig vona ég að mér eigi eftir að ganga með Baltasar og að í framtíðinni eigum við eftir að ná enn betri árangri. Eftir öll mótin í ár, fékk hann góða pásu. En nú erum við byrjaðir aftur, farnir að undirbúa okkur fyrir næsta keppnistímabil. Vinnan heldur áfram.

isibless: Segðu okkur aðeins meira frá Baltasar vom Freyelhof. Hann er undan Glampa frá Vatnsleysu og er níu vetra gamall. En hvernig karakter er hann? Af fimmgangshesti að vera er hann mjög hágengur og með virkilega sterkar gangtegundir.

Haukur: Já, takk fyrir hrósið. Ég mun skila því til hans! Það hljómar kannski klisjukennt en þannig er það samt: Hans sterka hlið er karakterinn, hann er einstakur. Hann er vinalegur, kurteis og samvinnuþýður og eiginlega mjög glaður hestur sem er alltaf jákvæður gagnvart því sem knapinn biður um. Baltasar er stóðhestur sem er alltaf tilbúinn að vinna með manni, þó svo að stress fylgi stórmótum eins og HM, hann stóð það vel af sér. Ég vil meina að karakterinn skipti miklu máli þegar verið er að krefja hesta í harðri keppni eins og HM er, þó auðvitað þjálfunin, hæfileikar, hreyfingar og jafnvægi verði að vera til staðar.

Síðan má ekki gleyma því að það er knapi með í spilinu. Á milli þeirra verður samspil að vera í lagi og við skiljum hvorn annan mjög vel. Baltasar er íslenskur hestur fæddur í Þýskalandi, ég er Íslendingur í Þýskalandi, þannig að við pössum vel saman!

isibless: Hvaða plön hefurðu gert fyrir árið 2010?

Haukur: Í fyrsta lagi vona ég að við öll verður hraust, mannfólkið og hestarnir. Síðan verðum við að halda áfram vinnu okkar og halda einbeitingu okkar í því, því úr engu verður ekkert. Með þessum góða árangri á þessu ári höfðum við ekki reiknað og þó Jóhanna með Erró og ég með Baltasar höfum náð góðum árangri, langar okkur að bæta okkur enn frekar á næsta ári.

Við erum nú þegar farin að þjálfa markvisst fyrir næsta ár. Það er mjög mikilvægt að byggja ofan á traustan grunn, það gerir maður ekki þegar keppnistímabilið er byrjað. Grunnvinna og framhaldsþjálfun er byrjuð og síðan hlutir eins og vöðvauppbygging og þol eru hlutir sem þarf að þjálfa og auka.

Við erum spennt fyrir komandi mótum og kynbótasýningum; við erum með 2-4 nýja kandídata á keppnisvellina og munum koma fram með þá á næsta ári ef allt gengur upp. En það verður að taka öllu með ró og sjá hvernig þeir þróast og hvenær þeir þurfa á hvíld að halda. Við bíðum bara þolinmóð; enda er mikilvægast núna að halda jólin og áramótin hátíðleg í faðmi fjölskyldunnar.

isibless: Falleg lokaorð... þakka þér Haukur fyrir spjallið. Ég óska þér og þínum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýja árinu.

Henning Drath - www.isibless.de - þýðing: Hilda Karen Garðarsdóttir