mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Harðsnúið lið kynbótahrossa á HM

12. júlí 2011 kl. 09:35

Glotti frá Sveinatungu hefur hækkað úr 7,67 í 8,24 fyrir sköpulag frá því hann var fyrst dæmdur 4 vetra. Knapi er Jakob Sigurðsson.

Glotti fer fyrir hópnum

Guðlaugur Antonsson, hrossaræktarráðunautur hefur tilkynnt hvaða kynbótahross hafa verið valin til þátttöku á HM2011 í Austurríki fyrir Íslands hönd. Tvö hrossanna eru þegar staðsett í útlöndum, en fjögur fara að heiman fyrir mótið.

Glotti frá Sveinatungu, sem var seldur til útlanda 2009, mun fara fyrir stóðhestunum, en hann keppir í elsta flokki. Hann hefur bætt sig mikið fyrir sköpulag frá því hann var fyrst dæmdur hér á landi, fékk þá 7,67 fyrir sköpulag, en er nú með 8,24. Þannig að það hefur tognað úr karli í vistinni ytra. Gott mál. Og ekki hafa kostirnir dalað, hann er nú með 8,90 fyrir þá, þar af 9,0 fyrir tölt og brokk, og 9,5 fyrir skeið og vilja. Knapi á Glotta verður sem fyrr Jakob Sigurðsson.

Gjöf frá Magnússkógum, sú er fer fyrir hryssunum og keppir í elsta flokki, er engin smá skúta heldur. Hún er með 8,55 í aðaleinkunn og þar af 8,76 fyrir kosti. Knapi Vignir Jónasson. Þá er rétt að geta þess að í landslið Íslands að þessu sinni fer sem knapi á kynbótahrossi hin unga en knáa Helga Una Björnsdóttir, en hún situr hryssuna Smá frá Þúfu, sem hún sýndi á LM2011 og fékk þá meðal annars 9,0 fyrir skeið og vilja. Listinn er annars þessi:

Stóðhestar 7 vetra og eldri.
IS2002136610 Glotti frá Sveinatungu.
F:     IS1988165895 Gustur frá Hóli
M:     IS1990236610 Sonnetta frá Sveinatungu
Knapi:     Jakob Svavar Sigurðsson.

Stóðhestar 6 vetra.
IS2005187018 Arnoddur frá Auðsholtshjáleigu.
F:    IS1999188801 Þóroddur frá Þóroddsstöðum
M:    IS1995287055 Trú frá Auðsholtshjáleigu
Knapi:     Sigurður Vignir Matthíasson.

Stóðhestar 5 vetra.
IS2006188028 Feykir frá Háholti.
F:    IS1990184730 Andvari frá Ey I
M:    IS1997288025 Efling frá Háholti
Knapi:     Sigurður Óli Kristinsson.

Hryssur 7 vetra og eldri.
IS1999238544 Gjöf frá Magnússkógum.
F:    IS1995186050 Hersir frá Oddhóli
M:    IS1986238544 Freyja frá Magnússkógum
Knapi:        Vignir Jónasson.

Hryssur 6 vetra.
IS2005265890 Rauðhetta frá Kommu.
F:    IS2002187662 Álfur frá Selfossi
M:    IS1997265598 Vilma frá Akureyri
Knapi:     Erlingur Erlingsson.

Hryssur 5 vetra.
IS2006284554 Smá frá Þúfu.
F:    IS1994184553 Sveinn-Hervar frá Þúfu
M:    IS1990284557 Dröfn frá Þúfu
Knapi:        Helga Una Björnsdóttir.