fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

"Harðir dómar og þung orð um þekkta tamningarleið"

26. febrúar 2014 kl. 13:27

Iben Andersen

Yfirlýsing frá Iben Andersen

Tamningaaðferð Iben Andersen fengu mikla gagnrýni í lok árs 2013. Hér fyrir neðan birtist yfirlýsing frá henni, um umfjöllunina sem hún hlaut í kjölfar þess að myndband af sýnikennslu með henni var birt sem og tamningaðferðina.

"Skilaboðin í tamningu þurfa að vera skýr en andleg og líkamleg vellíðan hestsins þarf alltaf að vera í forgangi

 Mörg þung orð féllu í umræðunni sem spannst eftir að myndband frá sýnikennslu minni var gert opinbert. Þetta var ekki góð sýning og harðir dómar voru felldir í kjölfarið. Yfirdýralæknir á Íslandi lýsti yfir vanþóknun sinni og óhætt er að segja að í mörgu sem sagt hefur verið í netmiðlum gæti mikillar heiftar. Þung orð hafa fallið og sum þeirra sem mér hafa borist í einkaskilaboðum eiga vafalaust meira erindi til lögreglunnar en almennings. Oft hefur líka verið hallað réttu máli og dregin upp mynd af þessari leið sem á ekkert skylt við raunveruleikann. Það yrði að mínu áliti mikill skaði fyrir hestamennskuna ef þessi eina sýning og þetta eina myndband hefði það í för með sér að þessi ævaforna og alþekkta leið til að kenna erfiðum hestum að treysta manninum yrði fordæmd og jafnvel lögð af á Íslandi.

Mér finnst ég verða að bera hönd fyrir höfuð mér. Ekki vegna þess að ég telji að þeir sem hafa gengið lengst í umræðunni og jafnvel sent mér hótandi einkaskilaboð muni sjá að sér og jafnvel sjá eftir því sem þeir hafa sagt. Því miður held ég að það sé ekki raunhæft markmið. Mig langar samt að setja þessar línur á blað til þess að verja þá aðferð sem stundum er gripið til þegar temja þarf erfiða hesta - að leggja hann með bandi. Um leið vil ég þakka þeim sem hafa haft kjark til að leggja orð í belg og koma bæði aðferðinni og mér persónulega til varnar. Þrátt fyrir alla hina neikvæðu umræðu er ég  enn þeirrar skoðunar að miðað við margar aðrar leiðir sem farnar eru við tamningu erfiðustu hrossanna sé uppbinding tiltölulega mjúk og áreynslulítil leið sem sjálfsagt er að fara í undantekningartilfellum. Ég hef aldrei vitað til þess að hesti sem er lagður með þessum hætti líði illa á eftir, hvorki andlega né líkamlega. Sama á því miður ekki við um margt annað sem oft er gert við hross bæði í tamningum og keppni og enginn gerir athugasemd við.

Ofbeldi í tamningu er aldrei réttlætanlegt.

Ástríða mín fyrir tamningum kviknaði snemma og ég tamdi minn fyrsta hest níu ára gömul. Ég drakk í mig allan fróðleik sem ég mögulega komst yfir og nýtti skólafríin á unglingsárunum til að starfa fyrir marga af bestu tamningamönnum Danmerkur. Að námi loknu fór ég síðan til Íslands og starfaði þar með frábærum fagmönnum á sviði hestamennskunnar. Ég hef með sama hætti starfað með tamningafólki í fremstu röð í Þýskalandi, Noregi, Hollandi, Ástralíu og á Spáni. Ég hef reynt að taka með mér allt það besta sem ég hef lært og sett það saman í ferli sem ég nýti bæði í tamningum mínum og kennslu. Í því ferli er uppbindingu erfiðra hesta beitt í undantekningartilfellum. Hún er því aðeins örlítið brot af vinnu minni en því miður virðast örlögin þó hafa hagað því þannig að ekkert annað komist að í umræðunni um skoðanir mínar og vinnubrögð.

 Mér er það mikið kappsmál að hesturinn haldi ávallt reisn sinni, sé sáttur og öðlist sjálfsöryggi í umhverfi okkar mannanna. Náttúruleg viðbrögð hestsins, þ.e. flótti, barátta og árásir, gagnast honum ekkert í þessu tilbúna nýja umhverfi og það er mikilvægt að leyfa hestinum að átta sig á þeim reglum sem gilda með þeim hætti að bæði hestur og maður geti upplifað gagnkvæma vináttu og virðingu.  Við vitum að hestur lærir mest í gegnum þrýsting og síðan þægindi. Hann vill læra og hann vill viðurkenningu. Mikilvægt fyrir vellíðan hestsins er að hann fái einfaldan og skýran skilning á því til hvers er ætlast af honum.

Markmiðið er að hesturinn sé sáttur, glaður, fús til vinnu og leiti til mannsins eftir öryggi, umbun og vellíðan í stað þess að reyna flótta eða lifa í stöðugum ótta.

Við þurfum að ná þessum tamningarmarkmiðum okkar á góðan, heilbrigðan og öruggan hátt. Við megum aldrei skilja hrossið eftir í langvarandi misskilningi einhvers staðar í tamningarferlinu og þess vegna er mikilvægt að klára þau verkefni sem fyrir hann eru lögð. Með því er ég alls ekki að meina að réttlætanlegt sé að beita hestinn ofbeldi eða meiða hann á nokkurn hátt.

Mikilvægt traust á framandi umhverfi

Þegar hestur leggst setur hann sig í viðkvæma aðstöðu sem eðlisviðbrögðin segja honum að treysta ekki. Ég er engu að síður sannfærð um að um leið og hestur samþykir að leggjast upplifir hann samstundis afslöppun og traust á því umhverfi sem menn hafa búið honum. Hann lærir að það sé í lagi að treysta í aðstæðum sem eðli hans segir að sé hættulegt. Mér finnst mikilvægt að þetta sé ekki gert fyrr en viðkomandi leiðbeinandi hestsins hefur öðlast traust hans og viðurkenningu á leiðtogahlutverki. Um leið upplifir hesturinn manninn hvorki sem rándýr né aðra ógn við líf sitt eða öryggi.

Þessari aðferð er langt í frá beitt á alla hesta heldur einungis á þá sem eru mjög erfiðir og hafa sterk flóttaviðbrögð. Flestum hestum má kenna að leggjast með ábendingu frá píski og rödd en sumir hestar bregðast þannig við að notkun bands er skynsamlegur valkostur. Tilgangurinn með bandinu er að gefa hestinum skýrari skilaboð, skýrari skil á milli áreiti og umbunar. Hesturinn lærir að leggjast á sömu forsendum og hann lærir allt annað. Hann upplifir áreiti, leitar eftir bestu leiðinni frá þrýstingnum og um leið og hann finnur hana er þrýstingurinn tekinn af. Á þessum tímapunki er hesturinn hvorki að gefast upp né upplifa sig ráðþrota. Þvert á móti tel ég, og fjölmargir aðrir sem beita þessari aðferð á erfið hross, að þau telji sig hafa fundið leið út úr vanda sem þau voru í. Skoðun mín, eftir að hafa fylgst með hundruðum hesta degi, viku, mánuðum eða árum eftir að þeir voru lagðir, er sú að þetta hafi verið eitt af því mikilvægasta sem þeir lærðu í tamningarferlinu - skilyrðislaust traust á manninum.

Auðvelt að halda - erfitt að sanna.

Ég hef hitt Sigurborgu Daðadóttur yfirdýralækni á Íslandi  á óformlegum fundi og útskýrt mín sjónarmið til þessarar tamningaraðferðar. Við erum sammála um það að í lagi sé að leggja hest með ábendingum. Sigurborg, og fjölmargir aðrir sem tjáð hafa sig um málið, telja aðgerðina ofbeldisfulla. Ég, fjölmargir aðrir tamningamenn um allan heim og fjöldi fólks sem hefur sem betur fer líka tjáð sig að undanförnu, erum því ósammála. Erfitt er að færa sönnur fyrir annarri hvorri skoðuninni.

Mistök á mína ábyrgð.

Yfirdýralæknir tók það fram í viðræðum okkar að hún byggði mat sitt fyrst og fremst á myndbandinu frá sýnikennslu minni á Gauksmýri. Í þeirri kennslu gerði ég mistök sem ég ein ber ábyrgð á. Ég féllst á að vinna með hest sem ég hafði ekki undirbúið nógu vel og vanmat þá truflun sem margir áhorfendur höfðu í för með sér. Ég vil þó taka það skýrt fram að hrossið skaðaðist ekki á nokkurn hátt. Það stóð upp með framsett eyru, áhugasamt um að halda áfram að læra og eigandi þess er ánægður með árangurinn, vöxt hrossins og viðgang. Um það veit ég að hann er reiðubúinn að vitna hvar og hvenær sem er.

Mér var ekki kunnugt um að þessi sýnikennsla væri tekin upp á myndband. Ég setti mig með litlum fyrirvara inn í aðstæður sem ég hef reynt að forðast en gerði það sjálfviljug og get sjálfri mér einni um kennt. Afleiðingarnar virðast ætla að verða þær að orðsporið sem ég hef byggt upp í kringum aðferðir mínar við tamningu hrossa hefur laskast verulega. Mér þykir það auðvitað miður. Ég veit að störf mín hafa oft vakið athygli og mér hefur þótt vænt um þær viðurkenningar sem ég hef fengið og þann árangur sem ég hef náð með mörg hross.

Ég gerði tæknileg mistök á Gauksmýri og mun læra af þeim. Ég tel mig hins vegar ekki hafa beitt röngum aðferðum við tamningu hrossa eða komið fram við þau af harðýðgi á nokkurn hátt. Ég er stolt af vinnu minni á undanförnum árum, stolt af því hvernig ég hef unnið með ólíkum hrossum víða um heim og stolt af því hvernig ég hef kennt hestaeigendum að umgangast þessa ómálga en heillandi vini sína. Þess vegna er ég staðráðin í halda áfram því starfi sem ég hef helgað líf mitt og snýst um að tengja mann og hest eins traustum og farsælum böndum og frekast er unnt.