þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hann var alltaf vel ríðandi

21. ágúst 2019 kl. 08:00

Sigurður á Molda frá Bjarnastöðum, myndin er tekin á Skógarhólum á síðustu öld

Í tölublöðum Eiðfaxa hefur í gegnum tíðina birst mikið af fróðlegu efni og viðtölum. Hér er viðtal við Sigurð Gunnarsson, bónda að Bjarnastöðum í Grímsnesi. Viðtalið birtist árið 2015 en Sigurður lést í júli 2016

 

 

 Sigurður Gunnarsson frá Bjarnastöðum í Grímsnesi tekinn tali

Þá sögu man ég að hafa heyrt að eitt sinn hefði hestamennska í Grímsnesinu borist tal við Jón Sigurðsson bónda í Skollagróf í Hrunamannahreppi og hann gert lítið úr. Honum var þá bent á að mörgum þætti í góðu lagi reiðmennska þeirra Bjarnastaðafeðga.
"Já, að vísu, en þeir eru Borgfirðingar", svaraði Jón.

Nafn Sigurðar á Bjarnastöðum var lengi vel þekkt í hópi hestamanna frá miðri síðustu öld og fram yfir aldamót. Hann er nefnilega í hópi - og af kynslóð fjölmargra sem lærðu af eldri reynsluboltunum áður en útlendingar tóku yfir reiðkennsluna og leiddu inn nýjar aðferðir með þeim tækjum og tólum sem flestir eða allir tileinka sér í dag. Sigurður bjó stórbúi um langt árabil ásamt því að stunda tamningar. Hann starfaði um nokkurt árabil með Þorkeli Bjarnasyni og héraðsráðunautum við dóma og forval á sýningar og stórmót. Í dag býr hann ásamt eiginkonu sinni Elínu Láru Sigurðardóttur í rúmgóðu einbýlishúsi hjá Borg í Grímsnesi. Hvattur af góðkunningja okkar beggja hafði ég samband við Sigurð og féllst hann á að eiga við mig spjall.


Ég tamdi mikið fyrir Jón í Skollagróf. "Samskipti okkar voru góð en dálítið sérstök", segir Sigurður og hlær ofurlítið. "Lengi vel átti hann ekki kerru til að flytja hestana svo ég sótti þá til hans. Tamningunni fylgdi reyndar svolítil viðbót. Það var jú á allra vitorði sem mig þekktu að ég var alltaf í einhverjum viðskiptum með hesta og hafði sambönd víða.  Og það fylgdi tamningunni að selja þau hross sem hann ætlaði ekki að eiga sjálfur. Hann sagði mér ákveðið hvaða verð hann vildi fá fyrir hvert tryppi og því ætlaðist hann til að ég skilaði en hefði svo mismuninn fyrir tamninguna og fyrirhöfnina. Þetta tókst mér nú að leysa ágreiningslaust".

 Ég spyr hvort þetta hafi þá verið auðveld hross og söluvæn?


"Já, þau voru það. Þetta voru hæfileikahross og auðveld í tamningu og sölu. En auðvitað getur enginn séð fyrir hvað upp á kann að koma í höndum nýrra eigenda. Man eftir einu atviki í því sambandi. Ég hafði selt hjónum í Reykjavík rauðan fola frá Jóni í Skollagróf. Þessi foli var undan- eða út af heiðursverðlaunahestinum Neista frá Skollagróf, alþægur og án vandamála eins og þau hross voru. Að ári liðnu hringir kaupandinn og segir hestinn ekki standa á nokkurn hátt undir væntingum. Líklega megi helst nota hann í smalamennskur en sér til ánægju ríði þessu enginn maður. Þetta leysti ég með því að taka hestinn aftur og borga. Það kom í ljós að klárinn var kominn úr öllu taumsambandi og var "upp úr beislinu". Ég tók hann strax í brúkun heima og reið honum bara við snúninga og  það tók ekki langan tíma að laga það sem hafði farið úrskeiðis. Dóttir okkar eignaðist hann svo og árið eftir lét hún átta ára frænda sinn keppa á honum á hestamóti með góðum árangri. Það var reyndar dálítið óvenjulega skemmtileg sýning. Sjálf stóð hún álengdar og kallaði skilaboðin til hestsins, hvar og hvenær skipta ætti gangi, hægja á og stöðva. Þetta hafði hún að sjálfsögðu þjálfað áður. Það stóð hinsvegar hvergi skrifað og þetta vakti athygli".
Og nú víkur sögunni að hestakaupum og verslun með hesta   

Ég stundaði lengi tamningar með búskapnum og var oft með svona allt upp í 14 15 hross í einu yfir sumarmánuðina í 30 ár. Mér til aðstoðar hafði ég oft unga stráka sem reyndust bara prýðilega. Þeir voru yfirleitt duglegir og áhugasamir og þó kaupið væri ekki hátt held ég að margir hafi kannski borið úr býtum reynslu sem nýttist þeim síðar. Einhverjir þessara stráka eru jafnvel þekktir í dag fyrir störf sín með hesta. Í tengslum við þessa starfsemi eru mér minnisstæðir tveir bæir hérna austur í sveitum. Þaðan komu gjarnan folar sem dálítið þurfti að hafa fyrir; sumir reyndar gátu verið ansi erfiðir. Fyrsta skiptið sem ég sótti fola á annan þessara bæja kom mér á óvart að þar var hvergi rétt eða aðhald til að ná hesti og á mig kom víst einhver undrunarsvipur þegar bóndinn rak hópinn inn á kýrnar í fjósinu til að handsama folagreyin.

Færri vildu kaupa þegar uppruninn vitnaðist

Þá kom líka oft fyrir að ég var beðinn um að selja þessa fola úr tamningunni eða þá að þeir vöktu áhuga ef þeir reyndust vel. En mörg dæmi voru um að menn hrukku til baka þegar þeim var sagt hvaðan þeir væru. Eitt sinn tók ég fjóra fola frá öðrum þessara bæja. Einn þeirra, grár á lit varð gæðingshestur, glæsilegur að útliti og vakti óskipta athygli þegar ég sýndi hann. Nokkrir fengu að prófa og fylltust áhuga. En þegar þeir fréttu um upprunann slokknaði áhuginn gersamlega. Svona gekk þetta lengi þar til að kona nokkur hreifst af gripnum og fékk að prófa. Hún kom himinlifandi til baka og vildi kaupa. Áður en kaupin voru fest spurði hún svona af rælni hvaðan hesturinn væri. Og nú brá ég á nýtt ráð. Ég sagði konunni að ég yrði að viðurkenna að ég væri ekki bindindismaður og það væri nú oft þannig að hestakaup færu fram í návist vasapelanna og þá ylti á ýmsu með bókhald. Og um þennan hest vissi ég bara hreint ekki neitt. Konan keypti hestinn og ekki veit ég annað en að þeim hafi samið vel". 

"Foreldrar mínir fluttust ofan úr Borgarfirði að Bjarnastöðum í Grímsnesi og hófu þar búskap árið 1928 og þar fæddist ég þrem árum síðar. Vandist hestum frá fyrstu sporum og fyrsta hestinn tamdi ég fermingarárið mitt. Pabbi átti rauðan fola fjögra vetra sem mér leist vel á og mun hafa látið það í ljós. Hann sagði að ég mætti eiga folann ef ég gæti tamið hann einn og hjálparlaust. Það tókst furðanlega en eitthvað mun hann nú hafa sagt mér til. Þessi fyrsti reiðhestur minn náði því kannski aldrei til fulls að sýna hjá mér allt það sem í honum bjó. Folinn var strax öskuviljugur og ég á þeim aldri að mér þótti gaman að leyfa honum að valsa óþvingað.  Eitt sinn man ég að er við feðgar vorum á heimleið úr réttum að hann bað mig um að fá að prófa, sem auðvitað var auðsótt af minni hálfu. Sá fullorðni var orðinn eitthvað hreifur af víni og fór nú að hjala við þann rauða á einhverju öðru tungumáli en ég. Og nú kom mér margt á óvart. Þarna sá ég fljótlega mótaðan og sniðfastan gæðing sem mér hafði líklega aldrei tekist að sýna. Og þetta held ég að hafi orðið til þess að ég fór að endurskoða margt í mínum vinnubrögðum."

(Sigurjón Gestsson fyrrv. sláturhússtjóri og sundlaugarvörður m.meiru á Sauðárkróki var þekktur tamningamaður og sýningamaður í fremstu röð um árabil. Honum segist svo frá)

Ég vann vetrarpart hjá Sigurði á Bjarnastöðum eftir að ég kom frá Hvanneyri. Það var góður tími. Sigurður er óvenju glöggur og mér fannst hann í mörgu líkjast Boga Eggertssyni í því að leggja sig eftir því að skilja hvað það væri í hestinum sem yrði til þess að honum væri ein gangtegund auðveldari en önnur og vinna út frá því. Sigurður er mikill heiðurs-og afbragðsmaður og af honum lærði ég mikið á þessum stutta tíma, en þó man ég aldrei til þess að hann segði mér til í neinu efni.    
 
Ég spyr hvort faðir hans hafi oft verið vel ríðandi og svarið kom skjótt:
"Hann var alltaf vel ríðandi".
Og ég fæ að heyra fáeinar sögur af Gunnari bónda á Bjarnasöðum, föður viðmælanda míns. Hann hafði um langt árabil þann starfa um haustgöngur að hirða fé í Rauðsgilsrétt í Borgarfirði fyrir bændur í Grímsnesi og reka það austur í heimabyggð. Af þeim ferðum verður ekki sagt í þessum pistli en þar kom fram að faðir hans hafði haft hestakaupabakteríuna í blóðinu og sætti færis ef álitleg kaup voru í boði. Tvo mósótta gæðinga frá Höfn í Melasveit átti hann hvorn fram af öðrum. Hafði fengið þann fyrri á fjórða vetri og tamið. Sá var smár vexti og fékk sérstaka meðhöndlun hjá húsfreyjunni, móður Sigurðar sem eignaði sér hestinn og hyglaði honum með nýmjólk er hún óttaðist að bóndinn ofbyði honum með óvæginni brúkun. Þetta var hörkugæðingur og skeiðferðin slík að fljótustu stökkhesta þurfti til að fylgja honum segir Sigurður. Sá yngri var stór og mikill en hafði verið skemmdur í beisli er hann lenti í eigu Gunnars sem náði fljótt að laga það vandamál. Þessi hestur var aðsópsmikill glæsitöltari sem sýndi ekki skeið.

Hestakaupasögur kann Sigurður margar, bæði af eigin viðskiptum og annara. Hann segir að dæmi hafi verið um það fyrir stórmótin í Skógarhólum að menn hafi komið sér fyrir á góðum stað þegar von var á þeim mönnum með rekstra sem vitað var að kæmu með hesta til að versla með. Þetta gerðu þeir til að sjá út álitlegustu hestana og verða fyrstir í viðskiptin.  Og þegar ég spyr hann um besta hest sem hann hafi eignast nefnir hann rauðblesóttan hest sem hann fékk í hestakaupum. Hesturinn var frá Eyði - Sandvík í Árnessýslu og var skemmdur í beisli, var með tungubasl. "Skömmu eftir að ég fór að taka hestinn í kennslu kom pabbi til mín þegar ég var að búa mig undir að stíga á bak. Hann hélt á krókstaf og rétti mér hann. Ég varð hálf-hvumsa við og spurði hann hvort hann héldi að ég þyrfti að berja folann með priki? Hann svaraði því ekki en sagði að ég skyldi prófa að smeygja króknum niður á nefbeinið og fá hann þannig til að hlýða fremur en að nota tauminn þegar vandamálið byrjaði. Og það reyndist vel. Þetta varð svo líklega einn besti hesturinn sem ég hef eignast.  Síðan eignaðist ég ljósaskjóttan klár sem ég átti lengi. Sá var frá Stóra-Vatnsskarði og þótti erfiður. Ég fékk hann í hestakaupum hjá Ingvari Magnússyni á Hofsstöðum. Þetta var einn af þessum "eins manns hestum" sem svo eru kallaðir vegna þess að þeir eru eiginlega ekki annara meðfæri en eigandans. Seinna frétti ég að hesturinn hefði verið settur á kappreiðar í nokkur skipti og síðan hefði hann verið nánast óviðráðanlegur vegna kvíðaspennu. Þetta varð fljótt mikill gæðingur og höfðingi.  Ég skírði hann Fána og var vel ríðandi á honum. Eitt sinn vorum við á ferð hér um sveitina fjórir góðir kunningjar. Allir vorum við eitthvað í glasi og þeir höfðu á orði að fá að prófa Fána. Ég var tregur til þess, enda átti ég ekki von á að það yrði neinum þeirra til yndis og sagði þeim það. Þeir sóttu þetta því fastar og buðu mér viskíflösku fyrir. Ég sagðist taka því og bætti við að ef þeir gætu riðið honum vandræðalaust eins og ég gerði þá mættu þeir eiga klárinn og fara með hann. Eftir nokkrar vangaveltur urðu þeir þessu afhuga en færðu mér flöskuna að skilnaði. Þó voru þeir allir góðir og vanir reiðmenn".

  Seldi Ulrich Marth mikið

Sigurður segist oft hafa lent í þeim vanda sem margir hestabændur þekkja, að eiga óþaflega mörg hross. "Venjulega fór ég að hafa áhyggjur og taka til minna ráða þegar þetta var orðin þriggja stafa tala. Þó seldi ég mikið á tímabili og átti mikil og góð viðskipti við Ulrich Marth á Sandhólaferju sem seldi mikið til Þýskalands. Oft var það svo að þegar hann fór að safna sér hrossum í næstu sendingu að hann leitaði fyrst til mín og lét umboðsmann sinn senda mér lista með lýsingum á hestum sem hann vantaði það sinnið. Bæði voru þetta hross úr eigin ræktun sem og hross sem ég hafði fengið í gegnum verslun eða seldi fyrir aðra. Það var gott að eiga viðskipti við Marth og umboðsmann hans, Gunnar Steinsson". Og nú segir Sigurður mér frá Moldu, hryssunni sem hann sýndi með afkvæmum til 1. verðl. á landsmótinu í Skógarhólum 1970. "Ég hafði tamið hana í mánuð þegar Marth sá mig á henni og var ákveðinn í að eignast hana og spurði um verð. Ég svaraði að faðir minn hefði gefið mér hana og hún yrði ekki seld. Hann var ekki alveg tilbúinn að taka því sem lokasvari; sýndi mér nýja WV bjöllu sem hann ók og sagðist láta mig hafa hana fyrir hryssuna og slétt skipti. Það gekk auðvitað ekki, ég sat við minn keip og við skildum í bróðerni.

Svo að þarna gerði ég eitthvað.....

Í löngu spjalli okkar Sigurðar kom að sjálfsögðu margt fram sem ekki verður allt rakið hér. Í störfum sínum með ráðunautum á stærri mótum og sýningum komu mörg hross til prófunar og skoðunar. Eitt sinn á Landsmóti í Skógarhólum komu til hans roskin hjón og báðu hann að prófa stóðhest sem boðinn var til sölu og þau höfðu jafnvel hug á að eignast. Þessi stóðhestur var glæsitöltarinn frægi, Lýsingur frá Voðmúlastöðum. "Þetta var auðsótt; ég fór á bak og reið hestinum inn skeiðvöllinn á góðu tölti. Þegar ég var að snúa honum og ætlaði að ríða til baka hljóp einhver kuldi og stífni í hestinn og ég fann að hann ætlaði að taka af mér völdin. Það var auðvitað ekki í boði af minni hálfu. Svo að þarna gerði ég eitthvað og í stað þess að þjóta, datt klárinn niður á brunaskeið og skeiðaði drjúgan spöl á bakaleið. Þetta sáu margir og undruðust víst, því ekki var vitað til að þetta hefði hann gert fyrr. Þarna voru kaup gerð í snatri, en ekki af hálfu þessara hjóna því áður en til þess kom höfðu tveir kunnir hestamenn sem sáu atvikið, orðið fyrri til og fest kaup á Lýsingi fyrir hrossaræktarsamtök".

    Samskipti knapa og hests eiga ævinlega að byggjast á samningi sem báðir eru sáttir við, segir Sigurður Gunnarsson

Spurður um hvaða gæðingur honum sé nú eftirminnilegastur af öllum þeim fjölda sem borið hafi fyrir augu á hestamótum nefnir hann Blæ frá Langholtskoti eftir skamma umhugsun. "Þetta var svo mikill höfðingi, hreyfingafallegur og gangrúmur, auk þess sem sýningin var falleg því sambandið og taumhaldið hjá Hermanni var svo gott". Og nú fæ ég að heyra áhugaverða sögu:  "Eitt sinn fékk rauðblesóttan fola utan af landi í tamningu. Eigandinn var þekktur ræktunarmaður en kannski ekki að sama skapi þekktur fyrir lipurt taumhald. Það stóðu að folanum sterkir reiðhestastofnar, enda varð þetta orðinn fluggæðingur þegar ég skilaði honum eftir rúmt ár. Af þessum hesti frétti ég svo það að eigandinn hefði riðið honum inn á stórmót í héraðinu. Hann var sagður hafa riðið inn á mótssvæðið á besta gæðingnum en út af því aftur á aumustu bykkjunni.   Samskipti knapa og hests eiga ævinlega að byggjast á samningi sem báðir eru sáttir við og komast frá með fullri reisn".

 Hér hefur teygst úr spjalli okkar Sigurðar og hefur þó mörgu verið sleppt sem gaman hefði verið að gera skil. Aðspurður segir hann þau hjón nú eiga örfá hross sem séu í umsjá fósturbróður hans, Ólafs Hjaltested bónda á Bjarnastöðum. Og ég spyr Sigurð hvenær hann hafi farið siðast á bak?
"Í febrúar síðastliðinn. Þá fékk ég einhvern snert af svima og þegar viðstaddir sáu það, var mér gert skiljanlegt að ég væri búinn að missa reiðleyfið. Nú er ég hinsvegar orðinn allur annar maður og hver veit nema ég sæki um endurnýjun á þessu fjandans leyfi?" segir Sigurður Gunnarsson fyrrum bóndi og tamningamaður frá Bjarnastöðum í Grímsnesi.