fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hagsmunir Landsmóts í fyrirrúmi

15. október 2014 kl. 15:18

Frá opnunarhátíð Landsmóts 2014.

Málefnalegur fundur í Mosfellsbæ í gær.

Fámennt en góðmennt var á málfundi um stöðu og framtíð Landsmóta sem haldið var í Harðarbóli í Mosfellsbæ í gærkvöldi.

Á fundinn mættu fulltrúar úr stjórn LH ásamt framkvæmdastjóranum Axeli Ómarssyni ásamt hestamönnum sem flestir voru úr hestamannfélögunum Fáki, Spretti og Geysi.

Að sögn Haraldar Þórarinssonar formanns LH voru umræður málefnalegar og samhljómur hafi verið á milli fundarins í gær og á Akureyri á laugardag. Þeir sem tjáðu sig voru sammála um að horfa þyrfti á hagsmuni mótana og þeirra sem sækja þau.

Líkt og á fundinum sem haldinn var á Akureyri kynnti Axel Ómarsson bráðabirgðauppgjör Landsmóts ehf. eftir hátíð sumarsins. Kom fram í máli hans að áhættan við að halda mót væri mikil og fór hann einnig yfir þá þætti sem þyrftu að vera til staðar til að hátíðin gæti haldið rekstrarlega grundvelli, t.a.m. þyrftu að vera til staðar mannvirki á Landsmótssvæðum fyrir gesti og keppendum.

„Viðburðurinn þarf byggingar til að ganga upp. Það sem reyndist okkur erfiðast var að eiga við tjöldin og halda þeim í lagi vegna mikils vinds. Ef framkvæmd viðburðarins byggist á tjöldum, sem treysta óneitanlega á gott veður, þá segir það sig sjálft að reksturinn getur orðið áhættusamur í gríðarlegu roki eins og oft vill verða á Íslandi,“ sagði Axel m.a. í viðtali við Eiðfaxa eftir Landsmót á Gaddstaðaflötum í sumar.

Nokkuð líflegar umræður sköpuðust um stöðu og framtíð Landsmóta í gærkvöldi. Til að mynda kom fram að nálgast þyrfti málefnið frá víðari forsendum, þ.e. að horfa á eflingu í greininni sem eflingu á mótinu. Með því að fjölga iðkendum í hestamennsku myndu áhugasömum gestum Landsmóts fjölga.