miðvikudagur, 16. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

"Hagsmunamál allra hestamanna"

18. september 2019 kl. 21:58

Hross útigangi

viðtal við Svein Steinarsson formann Félags Hrossabænda

 

 

Eins og sagt var frá í gær hér á Eiðfaxa að þá er stutt í land með það að nýtt forvarnarbóluefni gegn sumarexemi verði klárt og er þróunarvinna með það að komast á lokastig.

Rannsókn á sumarexemi og þróun á bóluefni til forvarnar hefur staðið yfir í fjölda mörg ár eins og þekkt er, en nú er komið að prófun bóluefnisins við raunverulegar aðstæður. Í það verkefni þarf 27 þæga og trausta hesta á aldrinum 6-12 vetra sem munu verða meðhöndlaðir (bólusettir) á Keldum og hefst það ferli í desember á þessu ári, en hestarnir verða síðan fluttir til Sviss í mars 2020. Félag hrossabænda mun hafa umsjón með að finna hross í verkefnið og munu fulltrúar þess um land allt leita til hesteigenda. Miðað er við að greitt verði 200.000 kr. með vsk fyrir hvert hross og að kaupverðið verði greitt 15. mars á næsta ári þegar stefnt er að útflutningi hrossanna.

Þeir hestar sem ætlunin er að flytja út fá hlutverk í reiðskólum en þegar hafa aðilar í Bern gefið kost á sér að koma að rannsókninni með því að fóstra hrossin gegn því að eignast þá í lokin.  Þessi samvinna er mikilvæg og í raun lykilþáttur til að verkefnið klárist en alltaf hefur legið fyrir að mikill kostnaður myndi liggja í uppihaldi og umsjón hrossanna til lokarannsóknarinnar sem mun taka þrjú ár. Það eru miklir hagsmunir í húfi að þetta verkefni klárist; í fyrsta lagi gagnvart velferð þeirra hrossa sem flutt eru erlendis, og eins eru markaðslegir hagsmunir gagnvart útflutningi á Íslenska hestinum verulegir fyrir alla þá fjölmörgu hagsmunaaðila sem tengjast hestinum.

Eiðfaxi náði tali af Sveini Steinarssyni formanni Félags hrossabænda sem hafði þetta um málið að segja.

Það er afar ánægjulegt að við séum að leggja af stað í lokaáfanga þess verkefnis að þróa bóluefni sem forver hrossin gegn sumarexemi en eins og við vitum þá hefur exemið mikil áhrif á velferð hrossa erlendis. Allan tímann höfum við horft á það sem velferðamál, að finna úrræði gegn exeminu en vissulega hefur það líka haft áhrif á sölu á hrossum úr landi --- Því er frábært ef okkur tekst að jafna stöðu þeirra hrossa sem fædd eru á Íslandi og flutt erlendis gagnvart þessu hvimleiða sumarexemi. Félag hrossabænda leggur allt í sölurnar um að þetta verkefni klárist, við höfum tekið að okkur að útvega 27 hross og getum boðið 200.000 krónur fyrir hvern grip. Við horfum til þess að fólk sé tilbúið að leggja verkefninu lið með því að selja okkur hrossinn á þessu verði. Hjá Félagi Hrossabænda lítum við svo á að þetta skiptu miklu máli fyrir alla þá sem hafa hagsmuni af hestamennsku hvort sem það eru hrossaræktendur, tamningamenn, reiðkennarar eða aðrir sem hafa atvinnu af hestatengdri starfsemi. Við óskum því eftir góðum viðbrögðum við útvegun hrossa svo verkefnið geti haldið áætlun og að endanleg niðurstað getið legið fyrir árið 2023.

Við þökkum Sveini fyrir samtalið og vísum til fréttarinnar frá því í gær þar sem nálgast má tengiliði víðsvegar um landið sem hægt er að hafa samband við vegna hrossa sem henta í rannsóknina.