fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafa gangtegundirnar og lúkkið

Jens Einarsson
26. nóvember 2009 kl. 10:32

Stóðhestar í næstbesta flokki seljast vel

Reynslan sýnir að lág byggingareinkunn stóðhesta dregur frekar úr áhuga fólks á að nota þá til kynbóta. Allmikil sala hefur þó verið í stóðhestum í næstbesta flokki í haust, eftir því sem söluaðilar segja. Stóðhestum sem hugsanlega henta í íþróttakeppni; hafa gangtegundirnar og lúkkið. Minni kröfur eru þá gerðar um byggingareinkunn. Stóðhestar þykja hafa meiri útgeislun í keppni en geldingar og hryssur. Hvort og hve mikla notkun þessir stóðhestar fá er hins vegar happadrætti með fáum vinningsmiðum.

Þetta vekur auðvitað upp gamla og síendurtekna spurningu: Í hverju er hin raunverulega fegurð gæðingsins fólgin? Alveg frá því farið var að dæma kynbótahross eftir stigunarkvarða hefur verið deilt um þetta atriði. Annars vegar eru þeir sem vilja meta fegurð hestsins fyrst og fremst í reið, og síðan styrk hans og endingu eftir því hversu vel hann þolir brúkun. Og hins vegar þeir sem vilja að fegurð og líkamsbygging hestsins sé metin í kyrrstöðu, án knapa, eftir fyrirfram ákveðnum forsendum. Sem tilgreindar eru í stigunarkvarðanum og hafa tekið breytingum í áranna rás.

Flestir eru sammála um að mikill árangur hafi náðst í ræktuninni hvað útlit hrossanna varðar. Enn eru þó margir sem telja að byggingin hafi of mikið vægi í dómum. Háar einkunnir fyrir sköpulag skili sér ekki nærri alltaf í meiri fegurð í reið, mýkt og endingu.