fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafa eignast góða vini

1. apríl 2015 kl. 14:29

Í hestaíþróttaklúbbi Fáks stunda fjórtán krakkar á aldrinum 10 til 16 ára hestamennsku undir handleiðslu reiðkennara. Hér eru Kristín Hrönn og Freyr með hestum sínum Snörp og Munki.

Fákur heldur úti félagshesthúsi fyrir krakka á aldrinum 10 til 17 ára.

Fjórtán ungir félagsmenn í Fáki eru með aðstöðu í félagshesthúsi Fáks í vetur. Þar njóta þau aðstoðar Karenar Woodrow reiðkennara sem heldur utan um hópinn, aðstoðar þau og leiðbeinir þegar þörf er á. Flestir krakkanna eru einnig hluti af hestaíþróttaklúbbi Fáks sem hóf göngu sína síðastliðið haust en markmið hans er að krakkar geti æft reiðmennsku reglulega líkt og í öðrum íþróttagreinum.

Þau Kristín Hrönn Pálsdóttir 12 ára og Freyr Vigfússon 15 ára eru með hestana sína í félagshúsi Fáks. Þau eru ánægð með fyrirkomulagið enda hafa þau eignast góða vini.

„Mér finnst félagslífið skemmtilegast. Það er svo gaman að vera í kringum annað fólk, sérstaklega fólk sem er á sama aldri og maður sjálfur,“ segir Freyr og Kristín er sammála. „Mér finnst skemmtilegast að kynnast hestinum og krökkunum,“ segir hún enda hefur hún eignast nokkrar góðar vinkonur frá því hún byrjaði í hestaklúbbnum í haust en þær eru allar í félagshúsinu líka.

En hvað er það nýjasta sem þau hafa lært? „Ég var að læra hindrunarstökk,“ svarar Kristín sem var einmitt að fara að taka þátt í hindrunarstökksatriði á Æskan og hesturinn síðar um daginn. Freyr tók líka þátt en reið töltslaufur. „Það hefur hjálpað bæði mér og hestinum mínum að auka sjálfstraustið,“ segir hann glaðlega.

Þessa grein má nálgast í 3. tbl. Eiðfaxa sem kom út í dag og má nálgast hér á rafrænu formi. Hægt er að gerast áskrifandi að Eiðfaxa í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is